Ekkert sem studdi ummæli um hleranir

eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Ríkissaksóknari greindi frá því í gær að við rannsókn á meintum hlerunum á síma Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Árna Páls Árnasonar hefði ekkert komið fram sem styddi ummæli þeirra um að símar þeirra hefðu verið eða kynnu að hafa verið hleraðir þegar þeir gegndu störfum í utanríkisráðuneytinu. Rannsókn verður ekki haldið áfram.

Þegar Morgunblaðið ræddi við Jón Baldvin hafði hann ekki séð fréttatilkynningu ríkissaksóknara og taldi raunar mjög athugavert að ríkissaksóknari skyldi ekki kynna efni hennar fyrir honum áður en hún var send fjölmiðlum.

Jón Baldvin sagði að rannsókn lögreglustjórans á Akranesi hefði aldrei getað leitt til niðurstöðu um það hvort símar hefðu verið hleraðir eða ekki. Þeir einir gætu upplýst málið sem hefðu stundað þessar ólögmætu hleranir en þeir væru bundnir trúnaðareiðum og þagnarskyldu og gætu hvorki rofið hana né vildu þeir viðurkenna lögbrot og eiga yfir höfði sér refsingu. "Engir þessara manna munu gefa sig fram að óbreyttu," sagði Jón Baldvin.

Fullyrðing gegn fullyrðingu

Við rannsókn lögreglu benti Jón Baldvin á mann sem sagðist hafa orðið vitni að því að sími hans var hleraður í Landssímahúsinu en í tilkynningu ríkissaksóknara kemur fram að eðlilegar skýringar hefðu fundist á atferlinu. Jón Baldvin sagði að hann hefði fengið þær upplýsingar að sá sem sat við hlustir hefði unnið hjá bilanaþjónustunni. "Hverju á ég að svara því? Engu. En voru símarnir alveg voðalega mikið bilaðir? Ég veit það ekki. Maðurinn sem var staðinn að því að hlera símann minn neitar náttúrlega að hafa gert það og þar með er fullyrðing á móti fullyrðingu," sagði hann.

Í tilkynningu ríkissaksóknara kemur einnig fram að annar heimildarmaður Jóns Baldvins, maður sem sagðist hafa unnið fyrir leyniþjónustu Íslands, hafi ekki getað staðfest veigamikil atriði í framburði hans. Aðspurður um þetta sagði Jón Baldvin að hann hefði aldrei gert ráð fyrir að umræddur maður myndi staðfesta frásagnir sínar við lögreglu enda væri hann þá að viðurkenna lögbrot.

Aðspurður hvers vegna hann vildi ekki gefa upp nafn þess sem kannaði síma hans í utanríkisráðuneytinu sagði Jón Baldvin að sá maður hefði gert sér þennan greiða í trúnaði, ef hann greindi frá nafni hans og framburður hans yrði síðan metinn ótrúverðugur myndi það eyðileggja starfsferil hans.

Árni Páll Árnason sagði að hann hefði í upphafi sagt að rannsóknin myndi ekki leiða neitt nýtt í ljós enda væri þetta mál sem ekki væri hægt að upplýsa með þeim aðferðum sem var beitt. Eðlilegast væri að Alþingi tæki málið til rannsóknar og veitti öllum sem hugsanlega hefðu stundað ólögmætar hleranir sakaruppgjöf.

Í hnotskurn
» Ríkissaksóknari segir ekkert hafa komið fram við rannsókn sem styðji ummæli um hleranir í utanríkisráðuneytinu.
» Að svo stöddu gefa þau gögn sem liggja fyrir í málinu ekki tilefni til að halda rannsókn áfram, að mati ríkissaksóknara.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert