Óttaðist reiði guðanna og skilaði hraunmolunum aftur

Hraunmolarnir, sem konan skilaði.
Hraunmolarnir, sem konan skilaði.

Ferðamálastofu barst á Þorláksmessu lítill pakki frá konu í Kanada. Þegar pakkinn var opnaður komu í ljós tveir litlir hraunmolar og bréf frá konunni, sem sagðist hafa tekið hraunmolana á Íslandi í sumar en síðan hafi ógæfan elt hana. Henni hafi verið sagt að á Hawaii séu ferðamenn varaðir við að taka með sér hraunmola því það reiti guðina til reiði og valdi ógæfu.

Á heimasíðu Ferðamálstofu er vitnað í kafla í bréfinu, sem er eftirfarandi:

    Á ævintýralegri ferð minni um Ísland í sumar valdi ég mér hraunmola og tók með mér heim. Síðan ég kom heim hefur ógæfan elt mig. Mér var sagt frá því að á Hawaii væru ferðamenn varaðir við því að aka með sér hraunmola þar sem það skapaði reiði guðanna að hrófla svo við náttúrunni og ógæfa myndi fylgja þeim sem það gerði. Ef til vill á þetta líka við á Íslandi þar sem bæði Ísland og Hawaii eru eldfjallaeyjur. Því sendi ég hér með þá mola sem ég tók og skila þeim þannig aftur til þeirra heimkynna.
Ekki kemur raunar fram hvar á landinu hraunmolarnir voru teknir en Ferðamálastofa segist að sjálfsögðu munu verða við beiðni konunnar og skila molunum aftur til náttúru Íslands.

Vefsvæði Ferðamálastofu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert