Fjölmenni á útifundi við Urriðafoss

Frummælendur á fundinum, Jón Vilmundarson, Sigríður Jónsdóttir, Bjarni Harðarson og …
Frummælendur á fundinum, Jón Vilmundarson, Sigríður Jónsdóttir, Bjarni Harðarson og Einar Haraldsson. mbl.is/Sigurður Jónsson

„Ég tel ófært að ráðast í þessa virkjun til þess eins að fóðra enn einn álrisann á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að gera þá kröfu að Urriðafoss verði ekki metinn á núlli. Ég skora á Landsvirkjun að staldra við og gá hvort ekki eru til aðrar leiðir ef það vantar orku. Á Búðarhálsi er hálfkláruð virkjun,“ sagði Bjarni Harðarson frambjóðandi meðal annars á fjölmennum fundi sem hann boðaði til á bökkum Þjórsár við Urriðafoss.

Fólk kom víða að til fundarins og lét ekki á sig fá þó aðeins kulaði og snjóél gengju yfir. Auk Bjarna fluttu ávarp Einar Haraldsson bóndi á Urriðafossi í Flóa , Jón Vilhelmsson bóndi á Skeiðháholti á Skeiðum og Sigríður Jónsdóttir bóndi og ljóðskáld í Arnarholti flutti meðal annars ljóðið Erfðakvæði.

„Ég vil virkja fossinn,“ sagði Einar Haraldsson, bóndi á Urriðafossi, en sagðist vilja að staldrað yrði við og gáð að málum áður en lengra yrði haldið. Það gengi ekki að Landsvirkjun setti virkjunina í útboð áður en samið hefði verið við landeigendur. Í máli hans kom fram að ríkisvaldið hefði fengið vatnsréttindin við Þjórsá 1918 frá Títan, félagi Einars Benediktssonar og hefði framselt hann til Landsvirkjunar. Einar taldi að líkur væru á því að bætur sem Landsvirkjun byði yrðu lágar og sagði hann ekki hægt að horfa fram hjá því að arðsemi Urriðafossvirkjunar væri talin vera 4 – 5 sinnum meiri en Kárahnjúkavirkjunar. Einar benti og á að jákvæðar hliðar virkjunar fossins væru að ísskrið í ánni hyrfi en það gæti orðið gríðarlegt. „Við skulum líka hafa í huga að Landsvirkjun liggur á en okkur liggur ekkert á,“ sagði Einar Haraldsson bóndi.

Jón Vilmundarson bóndi minnti á að fyrir lægi að þrjár nýjar virkjanir yrðu reistar í neðri hluta Þjórsár og Urriðafossvirkjun væri ein þeirra. Hann gagnrýndi Landsvirkjun fyrir að halda orkuverði leyndu en hefði þó gefið upp að arðsemi Urriðafossvirkjunar væri meiri en Kárahnjúkavirkjunar. Hann hvatti til þess að litið væri til umhverfissjónarmiða og skynsamlegrar nýtingar. „Þjóðin verður að vera upplýst um arðsemi framkvæmdanna annars verður ekki sátt um þessi mál,“ sagði Jón Vilmundarson bóndi í Skeiðháholti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert