„Netið ýtir undir hömluleysi og gróft ofbeldi"

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is
Árásarpiltarnir þrír sem sæta rannsókn vegna hinnar hrottalegu árásar í Garðastræti eru á framhaldsskólaaldri og framhaldsskólasamfélaginu er mjög brugðið vegna atburðarins. Að sögn Vilmundar Sveinssonar sem situr í stjórn hagsmunaráðs framhaldsskólanna eru margir jafnaldra hans miður sín vegna málsins.

„Það er alveg á hreinu að við erum jafnsjokkeruð og aðrir yfir þessu," segir hann. „Það liggur eitthvað að baki og öllum má ljóst vera að enginn heilbrigður einstaklingur gerir svona lagað. Ég held að svona unglingar fái ekki þann stuðning sem þeir þurfa," bendir hann á.

„Ofbeldisvæðingin sem kemur í gegnum Netið er orðin augljós og á sér svipaðar rætur og klámvæðingin. Það má t.d. benda á að það er ekki í sjónvarpi sem aftaka Saddams Husseins er sýnd heldur á Netinu. Alls staðar á Netinu er vísað á myndskeið með mjög grófu ofbeldi og ég held að þetta ýti undir ákveðið hömluleysi," segir hann.

Skýringar á ofbeldishegðun af þeim toga sem átti sér stað í Garðastræti helgast af ólíkum þáttum að mati sérfræðinga og er um að ræða samspil firringar, fíkniefnaneyslu og þess sem nefnt er ofbeldisfíkn.

Dr. Páll Biering skrifaði doktorsritgerð í geðhjúkrunarfræði árið 2001 þar sem hann birti niðurstöður rannsóknar sinnar á ofbeldi íslenskra unglinga. "Ég hef rætt við unglinga sem hafa lent í vandræðum vegna ofbeldishegðunar og þeir lýsa þessu sem fíkn, ákveðinni spennu sem þeir sækja í, og eru síðan miður sín á eftir," segir hann.

Sveinn Allan Morthens uppeldisfræðingur segir að tilefnislausum og hrottalegum árásum sé að fjölga. Vissulega hafi menn slegist áður en tiltölulega óþekkt hafi verið að ráðist væri á ókunnuga.

Í hnotskurn
» Tilefnislausum og hrottalegum árásum er að fjölga og óskrifaðar "reglur" sem eitt sinn giltu í slagsmálum eru ekki lengur fyrir hendi að mati sérfræðings.
» Að mati sérfræðinga er um að ræða samspil firringar, fíkniefnaneyslu og svonefndrar ofbeldisfíknar.

Nánar er fjallað um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert