Grunur um tengsl á milli Herbalife og lifrarbólgu

eftir Þóri Júlíusson

thorirj@mbl.is

Sex tilvik hafa komið upp á árunum 1999 til 2006 þar sem grunur leikur á um tengsl notkunar vara Herbalife og lifrarbólgu, að sögn Magnúsar Jóhannssonar, læknis og prófessors við HÍ. Hann segir að þessi tilvik hafi verið til skoðunar í kjölfar rannsóknar sem birt var 2002. Þá hafi það ýtt við læknum sem þetta rannsökuðu þegar greint var frá tíu slíkum tilfellum í Sviss í fyrra. „Af þeim var talið að tvö alvarleg lifrarbólgutilvik hefðu örugglega tengst neyslu vara frá Herbalife. Við erum hins vegar með eitt tilfelli hér á landi sem við myndum telja alveg öruggt,“ segir Magnús.

Að sögn Magnúsar er hugsanlegt að lifrarbólguna megi rekja til eitraðra jurta sem hafi verið að finna í Herbalife-vörum. Þær vörur sem innihaldi jurtirnar séu þó ekki seldar hér á landi en ekki liggi fyrir hvaða Herbalife-vörur fólk notaði.

Spurður hvort ekki hefði átt að greina fyrr frá málinu segir Magnús að það megi vel vera en nú sé fyrirhugað að setja upplýsingar um málið inn á vef Lyfjastofnunar.

Dr. Jón Óttar Ragnarsson, fyrrverandi yfirmaður matvæla- og næringarfræðisviðs HÍ, segist fagna umræðunni. Prófessor Magnús Jóhannesson hafi lengi staðið fyrir rógsherferð gegn Herbalife, meira að segja verið svo árum skipti með sérstaka níðgrein um Herbalife-fyrirtækið á heimasíðu sinni. Ekki hafi „staðið steinn yfir steini“ í frétt Sjónvarpsins um helgina. Um hafi verið að ræða u.þ.b. eitt lifrarbólgutilfelli á ári í sjö ár þar sem allir náðu aftur heilsu. „Þessi tilfelli segir Magnús að megi „næstum örugglega“ rekja til Herbalife og nefnir af því tilefni þrjár eitraðar jurtir en klykkir svo út með að engin þessara jurta sé í vörum Herbalife á Íslandi. Verður sannarlega spennandi að fylgjast með framvindu þessa máls hjá Magnúsi og þá sérstaklega hlakka ég til að skoða niðurstöður þessarar furðulegu rannsóknar sem Herbalife-fyrirtækið hefur ekki enn fengið að sjá þrátt fyrir ítrekaðar óskir,“ segir dr. Jón Óttar.

Í hnotskurn
» Í fréttum Sjónvarps á laugardag var greint frá málinu og birt yfirlýsing frá Herbalife. Fyrirtækið hyggst jafnframt svara ásökunum í vikunni.
» Magnús Jóhannsson segir að fyrirhugað sé að kynna efni rannsóknanna á læknaráðstefnu í Evrópu í vor.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »