Mikið um inflúensutilfelli á höfuðborgarsvæðinu

Inflúensa herjar nú á marga íbúa höfuðborgarsvæðisins, að sögn Þórðar G. Ólafssonar, yfirlæknis hjá Læknavaktinni í Kópavogi. Fá margir mikinn hita fyrstu dagana en venjulega gengur það versta yfir á viku.

„Við höfum fundið þetta á Læknavaktinni og á heilsugæslustöðvunum," sagði Þórður.

„Álagið hefur aukist, bæði í símaráðgjöf hjúkrunarfræðinga og svo er líka aukning í móttöku.

Getur tekið upp undir viku

Fólk fær hita, yfirleitt frekar háan og líka kvef, hósta, höfuðverk og beinverki, þessi hefðbundnu einkenni og leitar ráða, vill fá að vita hvort það sé hægt að gera eitthvað í stöðunni. Sjúkdómurinn er mismunandi langt genginn. Sumir eru lengur að vinna bug á þessu en aðrir og stundum koma sýkingar í kjölfarið og þær þarf að meðhöndla með lyfjum. Þetta leggst töluvert á krakka en reyndar á fólk á ýmsum aldri líka."

– Hver eru fyrstu einkennin og hvað á maður að gera?

„Þetta er tiltölulega fljótt að gerast, maður verður slappur, flestir fá hita, kvef og önnur einkenni. Stundum byrjar þetta með vanda í öndunarfærum en eftir skamman tíma kemur hiti og fleira með. Þegar vitað er að inflúensa er að ganga í bænum getur fólk verið nokkuð öruggt um að hún sé á ferð, allavega gert ráð fyrir því í upphafi. Þá er að fara vel með sig, hvíla sig heima, passa upp á að fá nægilega næringu og vökva.

Oft er þetta upp undir viku að fara úr manni, hitinn fer að lækka á þriðja og fjórða degi, kannski áfram svolítill hósti og svo minnkar þetta smám saman. En ef maður er annars hraustur og þetta ætlar ekki að hverfa, hitinn jafnvel hár áfram og maður er slappur og á erfitt með að nærast getur þurft að leita ráða. Þá er gott að geta hringt í Læknavaktina," sagði Þórður G. Ólafsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »