Íslenskar evrur seldar á eBay

Bent er á það á bloggi Júlíusar Sigþórssonar að verið sé að selja íslenskar evrur á þýsku útgáfu uppboðsvefjarins eBay. Evrurnar eru snotrar og sýna hesta, Ingólf Arnarson og villisveppi m.a. En einhverjum kann e.t.v. að koma það spánskt fyrir sjónir þar sem evrur hafa aldrei verið gefnar út á Íslandi. Raunin er enda sú að um er að ræða takmarkaða útgáfu sem svissneskt fyrirtæki lét gera fyrir þremur árum til að sýna hvernig íslenskar evrur gætu litið út.

Á vefsíðunni eru birtar myndir af evrunum, sem seldar eru í hefðbundnum pakkningum fyrir myntsafnara með einni mynt af hverjum tagi, allt frá eins sents mynt að tveimur evrum. Þá fylgir spjald með mynd af landinu og helstu upplýsingum um það.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í júlí árið 2004 að svissneskt fyrirtæki hefði tekið upp á því að búa til ímyndaða evrumynt og var hún seld á vefsíðu fyrirtækisins, þá voru gerðar norskar, færeyskar, grænlenskar og svissneskar evrur.

Á vefsíðu eBay er raunar tekið fram að um prufuútgáfu sé að ræða, en engu að síður hvatt til að fólk bjóði vel í peningana, sem sagðir eru fallegir. Hæsta boð sem enn hefur borist hljóðar upp á rúmar fjórar evrur, en andvirði eins slíks umslags af evrum nemur tæpum fjórum evrur. Fölsku evrurnar þykja því verðmeiri en þær raunverulegu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert