Jón Ásgeir: kreditreikningar ekki notaðir til að blása upp bækur Baugs

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Brynjar Gauti

Þinghald í Baugsmálinu hófst klukkan 13 í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag með því að Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar bar upp spurningar um liði 15 og 16 í ákærunni á hendur Jóni Ásgeiri. Jón Ásgeir svaraði því meðal annars til að aðalskrifstofa Baugs hefði greitt kreditreikninga frá Ávaxtahúsinu en ekki bara Nordica eins og saksóknari hafi haldið fram. Jón Ásgeir neitaði því algjörlega að kreditreikningar frá Ávaxtahúsinu og Nordica væru notaðir til að blása upp bækur Baugs. Slíkt ætti sér enga stoð í raunveruleikanum heldur væri verið að færa inn afslætti með sama hætti og gert hafi verið í öðrum tilvikum.

Neitar því að hafa átt eignarhluti í Viking bátunum

Meginhluti þinghaldsins í dag hefur farið í skýrslutöku saksóknara af Jóni Ásgeiri um ákærulið 18 sem fjallar um bátinn The Viking. En hann er ákærður fyrir fjárdrátt fyrir að láta Baug greiða fyrir reikningafyrir rekstri bátsins. Neitaði Jón Ásgeir sök líkt og í öðrum ákæruliðum.

Saksóknari spurði einnig út í tvo aðra báta, Viking 1 og Viking 2. Spurði saksóknari ítrekað hvort Jón Ásgeir hafi átt eignarhlut í þessum bátunum en Jón Ásgeir neitaði því.

Sagði Jón Ásgeir að Gaumur hafi lánað Jóni Gerald Sullenberger fé til kaupa á bátunum þremur og lánað Jóni Gerald fyrir ýmsum kostnaði og einnig greitt kostnað vegna ýmissa ferða sem hann tók þátt í. Jón Ásgeir sagði að hann hefði notað bátana í um tíu daga á ári. En tók það skýrt fram að ekki hafi verið um eign Gaums að ræða enda hefði það komið í ljós seinna Jón Gerald auglýsti bátana til sölu og seldi án nokkurs samráðs við meinta eigendur, það er Jón Ásgeir og Jóhannes föður hans.

Bankaábyrgð gefin út á sama tíma og Viking var keyptur

Saksóknari spurði talsvert út í bankaábyrgð sem gefin var út í Bandaríkjunum á sama tíma og einn bátanna var keyptur. Jón Ásgeir sagði að um væri að ræða bankaábyrgð sem Bónus sf. var skráð fyrir. Bankaábyrgð vegna vöruábyrgðar (consumer goods)og það kæmi greinilega fram í skjölum málsins. En saksóknari spurði Jón Ásgeir oft út það hvort bankaábyrgðin, sem var upp á 135 þúsund Bandaríkjadala, væri ekki vegna bátakaupa.

Ekki liggur fyrir hvernig þinghaldi lýkur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en er jafnvel búist við að það standi fram á kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert