Léttara yfir á fimmta degi

Skýrslutaka af Tryggva Jónssyni hófst í héraðsdómi í gær
Skýrslutaka af Tryggva Jónssyni hófst í héraðsdómi í gær mbl.is/Guðmundur Rúnar
eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Óhætt er að segja að létt hafi verið yfir þinghaldi fyrsta dags skýrslutöku yfir Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, ef miðað er við undanfarna fjóra daga í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem aðalmeðferð í Baugsmálinu fer fram. Meðan á skýrslutöku yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, stóð var andrúmsloftið spennuþrungið og settur saksóknari og verjandi Jóns tókust á af hörku, en heldur horfir til betri vegar ef marka má gærdaginn og hrósaði saksóknari Tryggva fyrir hversu vel gengi að fá frá honum svör – svona alla vega framan af. Gert er ráð fyrir að skýrslutöku yfir Tryggva ljúki nk. miðvikudag.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, náði að spyrja Tryggva út í ákæruliði 2–9, auk þess að spyrja "almennra spurninga" vegna ákæruliða 10–16. Á mánudag mun þinghald halda áfram með því að saksóknari spyr efnislega út úr 10. lið sem snýr að meintum bókhaldsbrotum og röngum tilkynningum til Verðbréfaþings Íslands. Einnig fékk Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, að spyrja Tryggva út í lið 2–9.

Eðli ákvarðana réð samráði

Sigurður Tómas hóf þinghaldið á svipuðum nótum og þegar Jón Ásgeir sat fyrir svörum. Tryggvi var spurður út í stöðu sína í dag og gert að gera grein starfsferli sínum í stórum dráttum á umræddu tímabili, 1998–2002, en þá gegndi hann starfi aðstoðarforstjóra félagsins. Þá var hann spurður út í hvaða verk hann vann í daglegum rekstri, sérstaklega hvað varðaði fjármálasvið fyrirtækisins. Tryggvi sagðist hafa verið yfir fjármálasviði en ekki starfað við það frá degi til dags.

Tryggvi var beðinn um að lýsa samskiptum sínum við Jón Ásgeir og sagði það mismunandi hversu oft þeir höfðu samráð vegna ákvarðana sem vörðuðu félagið, og fór þá eftir eðli ákvarðana og mikilvægi. Sagði hann þá á tíðum hafa haft samráð oft á dag en á öðrum tímum jafnvel vikulega. Spurður um hversu mikilvægar ákvarðanir Tryggvi tók án samráðs sagði hann erfitt um það að segja en til viðmiðs náði Sigurður Tómas að fá fram að Tryggvi hefði getað tekið ákvörðun um sölu eigna á innan við tíu milljónir króna. Spurður hvort hann hefði getað tekið ákvörðun um sölu eigna fyrir um hundrað milljónir sagði Tryggvi að aldrei hefði reynt á það.

Sjá ítarlega frásögn í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert