Flytja út íslenska tækni til Taívan

Jón Ólafur Sigurjónsson, starfsmaður Vélaverkstæðis Skagastrandar, sýnir notkun vettlingaþurrkarans sem …
Jón Ólafur Sigurjónsson, starfsmaður Vélaverkstæðis Skagastrandar, sýnir notkun vettlingaþurrkarans sem fer næstu daga til Taívan í rammbyggðum trékassa. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Vélaverkstæði Skagastrandar hefur í mörg ár framleitt vettlinga- og stígvélaþurrkara eftir eigin hönnun. Hafa þessir þurrkarar verið seldir um allt land í fiskiskip, fiskvinnslustöðvar, leikskóla og matvælaiðjur. Hefur framleiðslan líkað það vel að nú hefst vart undan að smíða þurrkara til að anna eftirspurn.

Nú nýverið voru fluttir út til Kína nokkrir þurrkarar til notkunar í skip sem þar eru í smíðum fyrir íslenska aðila. Þá er nú verið að útbúa til flutnings þurrkara sem eiga að fara til Taívan í skip sem þar eru í smíðum fyrir Skinney /Þinganes á Höfn. Þannig má segja að útflutningur á tækni sé hafinn til Taívan frá Skagaströnd þó fólk eigi fremur að venjast hinu að vörur séu fluttar inn frá þessari fjarlægu eyju.

Þurrkararnir eru útbúnir með rafmagnshitaelementi inni í sér og blásara komið fyrir efst á þurrkaranum. Blásarinn blæs síðan heitu lofti út gegnum 24, 32, 36 eða 40 stúta, allt eftir stærð þurrkarans. Hægt er að stilla hita blástursins eftir vild hvers og eins með stjórntakka utan á þurrkaranum þar sem jafnframt er fyrir komið yfirhitavari svo engin hætta er á yfirhitun. Vettlingum og eða öðru því sem þurrka á er síðan smeygt upp á stútana þar sem þeir þorna á skömmum tíma.

Nokkrir þurrkarar hafa líka verið framleiddir þar sem heitt vatn er leitt gegnum spíral inni í þurrkaranum og er þá rafmagnselimentinu sleppt. Hefur þessi gerð þurrkara gefist ágætlega á svæðum þar sem heitt vatn er ódýrt og aðgengilegt. Þurrkararnir eru glerblásnir að utanverðu sem gerir áferð þeirra fallega og auðvelt að þrífa þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina