Steggjunin endaði í fangaklefa

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ungan karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá konu í andlitið með glerflösku. Þetta gerðist í júní 2005. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 100 þúsund krónur í bætur. Fram kemur í dómnum að verið var að „steggja" manninn og hann var ásamt félögum sínum á pítsustað í Reykjavík þar sem hann lenti í orðaskaki við gest. Stúlkan sem fékk flöskuna í andlitið starfaði á staðnum.

Samkvæmt lögregluskýrslu var óskað aðstoðar lögreglunnar vegna manns sem gengi berserksgang á veitingastað. Þegar lögreglumenn komu á staðinn stóðu þrír menn fyrir utan. Einn þeirra var æstur og réðist að einum lögreglumannanna en var tekinn lögreglutökum og færður í handjárn. Í lögreglubílnum fór hann að hrækja og kom til stimpinga í kjölfarið og á endanum var maðurinn fluttur á lögreglustöð og látinn vera í fangaklefa um nóttina.

Lögreglumennirnir ræddu við vini mannsins á vettvangi, sem sögðust hafa verið að „steggja“ hann. Einn af gestunum inni á staðnum sagði lögreglu, að hann hefði setið þar inni ásamt systur sinni og dóttur hennar og gert athugasemdir við að maðurinn hrækti á gólfið og henti að sér bjórflöskum. Hefði ein bjórflaskan lent í andliti stúlkunnar. Þurfti stúlkan að leita aðstoðar á slysadeild þar sem sár sem hún fékk á ennið var saumað.

Maðurinn sagðist við yfirheyrslur ekki muna eftir þessum atburðum þar sem hann hefði verið mjög ölvaður og ekki einu sinni munað eftir því að hafa farið á veitingastaðinn. Félagar hans hefðu verið að „steggja“ hann og hann byrjað að drekka áfengi um morguninn klukkan 11:30. Hefðu þeir m.a. farið til Keflavíkur síðar um daginn og hann myndi ekki eftir því að hafa farið til baka til Reykjavíkur. Tók hann fram að honum þætti þessi hegðun sín mjög miður og hann hefði verið orðinn allt of fullur, þótt það afsakaði ekki gjörðir hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina