Tekist á í Baugsmálinu

Í morgun hófst önnur vikan í aðalmeðferð seinni hluta Baugsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Tryggvi Jónsson sat fyrir svörum og settur saksóknari Sigurður Tómas Magnússon spurði hann út úr 10. ákærulið ákærulið þar sem Jón Ásgeir er sakaður um meiriháttar bókhaldsbrot.

Minnisleysi
Oft bar Tryggvi við minnisleysi er settur saksóknari spurði hann um tilurð ýmissa skjala og minnismiða og einu sinni sagði hann settum saksóknara að hann væri að misskilja flókið bókhaldsatriði.

Yfirheyrsluaðferðum mótmælt
Jakob Möller verjandi Tryggva Jónssonar mótmælti yfirheyrsluaðferðum Sigurðar Tómasar og sagði að þær minntu á aðferðir lögreglunnar þar sem hann spyrði þráfaldlega um skjal sem hann vissi vel að hefði verið fellt úr gildi og drægi síðan upp hið rétta skjal í lok yfirheyrslunnar. Jakobi fannst að þessi yfirheyrsluaðferð ætti ekki heima í dómssal.

Sigurður Tómas sagði að þetta væru fullkomlega eðlilegar yfirheyrsluaðferðir, hann væri einfaldlega að fara yfir skjöl í málinu í réttri tímaröð og vildi hann með þessum hætti sýna hvernig skýringar fólks tengdu málinu hafi breyst.

Rafmagnað andrúmsloft
Þegar hér var komið sögu var andrúmsloftið í réttarsalnum orðið nokkuð rafmagnað og verjandi Tryggva mótmælti því að skýringar hans hafi breyst og Tryggvi bar sjálfur fram bón um að spyrja saksóknara einnar spurningar og sagði saksóknari ákveðið nei, það mætti hann ekki.

Hér skarst dómari í leikinn og bað um skýringu á spurningaaðferðum saksóknara en tók jafnframt fram að það væri takmarkað hvað dómari mætti skipta sér af.

Sigurður Tómas útskýrði sínar aðferðir við yfirheyrsluna og sagði að hann hefði verið löngu búinn með þennan lið spurninganna ef þessi truflun hefði ekki komið til. Þá mótmælti Jakob Möller harðlega og dómarinn tók undir þau mótmæli.

Jón Ásgeir millilendir í yfirheyrslu
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs sagði að hugsanlega yrði yfirheyrslum yfir honum haldið áfram um miðjan dag á fimmtudaginn kemur en þá gæti Jón Ásgeir stoppað í 3 klukkustundir eða svo á leið sinni frá Englandi til Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert