Dómari sagði saksóknara ekki vera umboðsmann neytenda

Verjendur í Baugsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Verjendur í Baugsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Brynjar Gauti

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, minnti Sigurð Tómas Magnússon, settan ríkissaksóknara í Baugsmálinu, á að hann væri ekki umboðsmaður neytenda í réttarsalnum. Spratt þessi athugasemd af yfirheyrslu Sigurðar Tómasar yfir Tryggva Jónssyni, fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs, þar sem magnafslættir vegna vöruinnkaupa komu til tals.

Sigurður Tómas var að yfirheyra Tryggva um afslætti, sem Bónus fékk hjá byrgjum á sínum tíma. Tryggvi sagði, að um hefði verið að ræða reikninga, sem hefðu verið bókfærðir þannig að afslátturinn kæmi ekki strax fram í verðlagi svo ekki mynduðust sveiflur í vöruverði.

Saksóknari sagði þá: „Þú meinar til að neytendur nytu ekki góðs af því?" Þá mótmælti Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgers Jóhannessonar, forstjóra Baugs, harðlega og sagði að glósur um fyrirtæki ákærðu í málinu væru ómaklegar og óþarfar því þær yrðu gjarnan að umfjöllunarefni fjölmiðla. Í kjölfarið gerði dómarinn fyrrgreinda athugasemd.

Nú er verið að yfirheyra Tryggva um viðskipti Baugs við Jón Gerald Sullenberger, eiganda Nordica. Kom m.a. fram að Tryggvi sagðist ekki kannast við tölvupósta, sem lagðir voru fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert