Neytendaumræða í Baugsmálinu

Yfirheyrslum yfir Tryggva Jónssyni fyrrum forstjóra Baugs var haldið áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Ákæruvaldið hélt áfram að spyrja út í 15. ákærulið. Þar er Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva gert að sök að hafa framið meiriháttar bókhaldsbrot og að hafa rangfært bókhald Bónuss. Var hann einnig spurður út í viðskipti Baugs við fyrirtæki Jóns Geralds Sullenberger.

Upp úr sauð í Dómssal 101 er Sigurður Tómas Magnússon saksóknari kom með athugasemd um afslætti sem Bónus fékk hjá byrgjum. Reikningar með miklum afslætti voru bókfærðir þannig að afslátturinn bærist ekki út í verðlagið. Tryggvi Jónsson sagði að það væri gert til að halda stöðugu verðlagi og þá skaut saksóknari inn: „þú meinar til þess að neytendur nytu ekki góðs af því,”

Þessu mótmælti Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs harðlega og sagði að glósur um fyrirtæki ákærðu væru óþarfar og ómaklegar og verði gjarnan að umfjöllun fjölmiðla. Dómari minnti saksóknara á að hann væri staddur í dómssal sem umboðsmaður ákæruvaldsins en ekki neytenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert