Kostnaður við íþróttadeild RÚV 207 milljónir á árinu

Ekki er upplýst hver kostnaður er við sýningarrétt á Formúlu-1.
Ekki er upplýst hver kostnaður er við sýningarrétt á Formúlu-1. Reuters

Áætlað er að kostnaður við íþróttadeild Ríkisútvarpsins verði 207 milljónir króna á þessu ári. Á síðasta ári var kostnaðurinn 199 milljónir, 174 milljónir árið 2005 og 207 milljónir árið 2004. Ekki eru veittar upplýsingar um hvað Ríkisútvarpið greiðir fyrir sýningarrétt frá Formúlu-1 og fyrir sýningarrétt frá Evrópukeppni landsliða í knattspyrnu 2008 þar sem stofnunin er bundin trúnaði um þessa samninga.

Þetta kemur fram í svari menntamálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Björns Inga Hrafnssonar, varaþingmanns Framsóknarflokksins.

Björn Ingi spurði einnig hvort sýningarréttur frá Formúlu-1 og EM hafi að hluta til verið fjármagnaður með stuðningi kostunaraðila og er svarið játandi.

Ráðherra segir í svarinu, að umræður sem hafi átt sér stað um hvort það sé í hlutverki Ríkisútvarpsins að sýna vinsælt íþróttaefni hafi m.a. gert það að verkum að Ríkisútvarpið hafi reynt að tryggja sér réttinn að slíku efni. Ástæða þess sé sú krafa, sem margir þingmenn ásamt almenningi hafi sett fram, um þá skyldu Ríkisútvarpsins, sem fjölmiðils í almannaþágu, að sýna vinsælt íþróttaefni í opinni dagskrá fyrir alla landsmenn.

„Forsenda þess að hægt sé að skapa heildstæða dagskrá þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi er að bjóða fjölbreytt efni. Vinsælt íþróttaefni skipar ávallt stóran sess í fjölbreyttri dagskrá ríkisfjölmiðla sem vilja bjóða blöndu af ólíku efni í opinni dagskrá fyrir alla landsmenn," segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert