Pólitísk tenging, segir Jón Ásgeir

Settur ríkissaksóknari fékk eina klukkustund til að ljúka skýrslutöku af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem hafði verið stöðvuð af dómara vegna tímaskorts í síðustu viku. Nýtti saksóknari þann tíma allan til að fara yfir átjánda ákærulið þar sem Jóni Ásgeiri og Tryggva Jónssyni er gert að sök að hafa dregið fjárfestingafélaginu Gaumi rúmar 32 milljónir frá Baugi hf. til að fjármagna eignarhlut Gaums í skemmtibátnum Thee Viking.

Jón Ásgeir bar því oftlega við að hann hefði ekki séð um að greiða reikninga fyrir Baug og ítrekaði að Gaumur hafi ekki átt þennan bát.

Málaferlin skaða tryllitækið Baug
Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs fékk einnig að spyrja hann og þá kom í ljós að Jón Ásgeir telur að þessi málaferli hafi skaðað fyrirtækið mjög mikið. Hann sagði að það hefði verið hans hugmynd að stofna það og að það væri hans barn.

„Baugur er 12 cylindra tryllitæki sem hefur þurft að keyra í 1. og öðrum gír á meðan málið hefur verið rekið fyrir dómstólum,” sagði Jón Ásgeir. Hann gagnrýndi jafnframt rannsókn ríkislögreglustjóra og tók einnig fram að enginn af þeim tölvupóstum sem lagðir hafa verið fram komi úr hans eigin tölvu.

Spurður um pólitísku tenginguna
Verjandi Jóns Geralds, Brynjar Níelsson, kvaddi sér máls undir lok yfirheyrslunnar og spurði um pólitíska tengingu málsins. Jón Ásgeir sagði að upphafið hefði verið frægur fundur Hreins Loftssonar og Davíðsoddsonar þáverandi forsætisráðherra í London 2002. Þá hefði komið í ljós illvilji, öfund og reiði í garð félagsins og að haft hefði verið í hótunum við Bónus og eigendur þess.

„Hvað olli reiði forsætisráðherra?” spurði Brynjar Níelsson. „Hann hafði ekki miklar mætur á félaginu og notaði það sem blóraböggul fyrir aukinni verðbólgu," Sagði Jón Ásgeir og bætti því við að tengingin við kæru Jóns Geralds væri sú að honum hefði verið att út í að kæra þá feðga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert