Vitnaleiðslum haldið áfram yfir Jóni Gerald

Jón Gerald Sullenberger í réttarasalnum ásamt Brynjari Níelssyni, verjanda sínum …
Jón Gerald Sullenberger í réttarasalnum ásamt Brynjari Níelssyni, verjanda sínum og Gesti Jónssyni, verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Vitnaleiðslum hefur í dag verið haldið áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Jóni Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóra Nordica, sem er einn af sakborningum í Baugsmálinu. Í upphafi dómhaldsins í morgun tjáðu saksóknari og verjendur sig einnig um nafnlaust bréf, sem sent hefur verið til ýmissa aðila málsins en gert er ráð fyrir að sérstakur fundur verði um bréfið síðdegis.

Jón Gerald hefur í dag verið yfirheyrður bæði sem sakborningur og sem vitni vegna ákæru á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, og Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra. Um er að ræða ákæruliði 18 og 19.

Í framburði Jóns Geralds kom fram, að frá áramótunum 1999-2000 hefði hann sent reikninga til Baugs þar sem fram að reikningarnir væru fyrir ráðgjöf og þjónustu fyrir Baugs. Þessir reikningar hefðu hins vegar í raun eingöngu verið vegna kostnaðar við rekstur skemmtibátsins Thee Viking.

Í fyrstu hljóðuðu þessir reikningar upp á 8 þúsund dali á mánuði en hækkuðu síðar í 12 þúsund dali. Jón Ásgeir hefur fullyrt að reikningarnir væru vegna þjónustu Nordica við Baug en Jón Gerald sagði, að ekkert væri hæft í því.

Jón Gerald sagði, að það hefði heldur aldrei komið til tals að Baugur eða Gaumur, fjárfestingarfélag Baugsfjölskyldunnar, ættu hlut í bátnum heldur hefði alltaf verið gert ráð fyrir að báturinn væri í eigu hans og Jóns Ásgeirs og Jóhannesar Jónssonar persónulega.

Í ákærunni er Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa dregið Gaumi rúmar 32 milljónir króna til að fjármagna eignarhluts Gaums í skemmtibátnum.

Fram kom í réttarhaldinu að í lok desember 1999 hafi Jón Gerald fyrir misskilning sent reikning frá New Viking, eignarhaldsfélags bátsins, til Baugs þar sem fram hefði komið kostnaður við bátinn. Hann hefði fengið leiðréttingu frá Tryggva vegna þessa og verið beðinn um að senda nýjan reikning þar sem fram kæmi að þetta væri vegna þóknanagreiðslna. Vísaði Tryggvi til samkomulags, sem gert hefði verið um málið.

Jón Gerald sagði að þessar greiðslur hefðu haldið áfram fram á árið 2002, alls 144 þúsund dalir árlega eftir að greiðslurnar hækkuðu.

Bað um greiðslukort
Í réttarhaldinu var einnig rætt um notkun Tryggva Jónssonar á greiðslukorti frá Nordica en Tryggvi er í ákærulið 19 ákærður fyrir fjárdrátt upp á 1,3 milljónir króna með því að láta Baug greiða Nordica fyrir þessar úttektir, sem hafi verið persónuleg útgjöld; á reikningum eru greiðslurnar hins vegar sagðar vera ferðakostnaður og vegna tæknilegrar aðstoðar.

Jón Gerald sagði að Tryggvi hefði óskað eftir að fá þetta kreditkort og við því hefði hann orðið. Hann hefði síðan tekið saman hversu miklu Tryggvi eyddi og sent Baugi reikninga með texta, sem Tryggvi hefði sagt fyrir um hvernig ætti að hljóða. Aldrei hefði komið til tals að skipta ætti þessum kostnaði í persónuleg útgjöld og útgjöld vegna Baugs.

Jón Gerald var sérstaklega spurður að því hvort hann hefði fengið aðrar greiðslur vegna taps á rekstri Nordica. Hann sagði að svo hefði verið, frá 50 þúsund dala greiðslum upp í 120 þúsund dali en þær hefðu ekkert tengst 12 þúsund dala mánaðargreiðslunum vegna bátsins.

Ógeðfellt bréf
Í byrjun dómþingsins í dag tjáðu settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu og verjendur sig um nafnlaust bréf sem sent hefur verið mörgum sem koma að málinu. Í bréfinu segir m.a. að íslenskir dómstólar hafi gersamlega brugðist í Baugsmálinu til þessa og eru m.a. vangaveltur um að sýknudómar og frávísanir í málinu í Hæstarétti séu hefnd dómara við réttinn gegn Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna þess að Davíð hafi beitt sér fyrir því að þeir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson voru skipaðir hæstaréttardómarar.

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, sagðist ekki hafa séð þetta bréf fyrr en verjendur sýndu honum það fyrir skemmstu. Hann hefði því í gær óskað eftir fundi með verjendum og dómara um þetta mál.

Gestur Jónsson sagði að bréfið væri afar ógeðfellt og sýndi illan hug bréfritara til tveggja samborninga í málinu. Jakob R. Möller, verjandi Tryggva, sagðist sammála því að bréfið væri ógeðfellt en hann væri hins vegar ekki sammála þeirri skoðun Gests, að bréfritari væri maður með þekkingu á lögfræði. Í þessu bréfi væri öllu snúið á haus um það hvernig dómstólar landsins ynnu. Sagðist Jakob ekki hafa neina trú á, að bréfið hefði áhrif á rekstur málsins enda virkaði dómskerfið ekki þannig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert