Yfirheyrslum yfir Jóni Gerald lokið

Yfirheyrslum yfir Jóni Gerald Sullenberger er lokið í Héraðsdómi Reykjavíkur en á mánudag verðuur m.a. tekin skýrsla af Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs Group, og Jóhannesi Jónssyni, kenndum við Bónus.

Eftir hádegi í dag spurðu þeir Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Jakob R. Möller, lögmaður Tryggva Jónssonar, Jón Gerald út í ýmsa þætti í framburði hans. Var greinileg spenna í réttarsalnum meðan á þessu stóð og gerðu verjendur oft athugasemdir við svör Jóns Geralds.

Gestur sagði m.a., að þær tölur, sem Jón Gerald hefði nefnt í stefnu Nordica gegn Baugi á sínum tíma stæðust engan veginn miðað við gögn málsins nú og óskaði eftir skýringum. Jón Gerald sagðist ekki geta gefið betri skýringar en, að tölurnar í stefnunni hefðu verið reiknaðar út af endurskoðanda Nordica.

Þegar Gestur spurði Jón Gerald, hvort reikningar, sem hann gaf út mánaðarlega til Baugs á árunum 1999-2002 hefðu verið vegna þjónustu við Baug hafnaði Jón Gerald því og sagði að þeir hefðu verið vegna reksturs bátsins Thee Viking. Gestur spurði þá hvort kostnaðurinn við bátsreksturinn hefði alltaf átt að enda á sléttri tölu en reikningarnir voru fyrst upp á 8 þúsund dali á mánuði og síðan upp á 12 þúsund dali. Jón Gerald sagði að kostnaðurinn hefði verð mismunandi en allt þetta fé hefði farið í rekstur bátsins.

Jón Gerald lýsti m.a. veislum sem verið hefðu haldnar á vegum feðganna Jóns Ásgeirs og Jóhannesar um borð í Thee Viking.

Jakob spurði hvort fyrir lægi að Tryggvi hefði ítrekað óskað eftir sundurliðun á kreditkortafærslum á korti, sem Jón Gerald útvegaði honum en Jón Gerald hefur sagt við réttarhöldin að kortið hafi verið gefið út af Nordica og hann hafi síðan sent Baugi reikning fyrir útgjöldunum.

Jón Gerald ítrekaði að í þessum reikningum hefði ekki verið greint á milli persónulegra útgjalda Tryggva og annarra útgjalda. Jakob vísaði þá til framburðar Jóns Geralds í lögregluskýrslu þar sem hann sagði, að í einhverjum tilvikum hefði Tryggvi beðið um sundurliðun á útgjöldunum og fengið hana. Jón Gerald sagði að í dag myndi hann ekki eftir eftir því. Hins vegar hefði hann hugsanlega átt við, að Tryggvi hefði 1-2 sinnum beðið um sundurliðun ef reikningurinn til Baugs var óvenju hár og það hefði hugsanlega átt við um kaup á sláttutraktor, sem m.a. er fjallað um í ákæru málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert