Athugasemdir gerðar við málflutning Hags í Hafnarfirði

Uppdráttur sem sýnir hugsanlegt þynningarsvæði fyrir stækkað álver í Straumsvík.
Uppdráttur sem sýnir hugsanlegt þynningarsvæði fyrir stækkað álver í Straumsvík.

Samtökin Sól í Straumi hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem alvarlegar athugasemdir eru gerðar við málflutning fulltrúa hóps fyrirtækja, sem eiga viðskipti við álverið í Straumsvík, í fjölmiðlum í gær undir nafninu "Hagur Hafnarfjarðar". Segir að þær fullyrðingar og röksemdafærslur sem þar voru tíundaðar séu meira eða minna úr lausu lofti gripnar og eigi ekki heima í annars málefnalegri og upplýsandi umræðu um þetta mál í bænum.

Í tilkynningunni er hópurinn „Hagur Hafnarfjarðar" sakaður um að beita hræðsluáróðri og að Hafnfirðingum sé stillt upp við vegg með fullyrðingum um að störf í bæjarfélaginu séu í hættu.

Er í tilkynningunni vitnað í vefsíðu Alcan þar sem segir að hafnfirskir birgjar séu um 50 en að Hagur Hafnarfjarðar hafi fullyrt að Alcan ætti viðskipti við um 100 fyrirtæki.

Þá er sú fullyrðing gagnrýnd að hvergi sé hægt að framleiða ál á jafn umhverfisvænan hátt og á Íslandi. Það sé fjarstæða enda sé endurnýjanlega orku að finna víða í heiminum og umhverfisvænast af öllu sé að vinna ál þar sem ekki þarf að flytja hráefnið um langan veg og allt er á einum stað, báxítnámur, súrálsverksmiðjur og álver eins og t.d. í Brasilíu.

Fullyrðingum um að að 5-7% af tekjum bæjarins komi frá álverinu er einnig vísað á bug og segir að rétt sé að beinar tekjur bæjarins undanfarin ár af álverinu hafi verið á bilinu 1-2% af heildartekjum bæjarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina