Mikil óánægja með frávísun í máli forstjóra olíufélaganna

mbl.is/Júlíus

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er óánægður með þá ákvörðun Héraðsdóms að vísa frá dómi ákæru ríkissaksóknara á hendur forstjórum olíufélaganna fyrir meint brot á samkeppnislögum. Alls lýstu 83,5% sig óánægð með frávísunina, þar af voru 59% mjög óánægð og 24,5% frekar óánægð. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Capacent Gallup.

Hinsvegar voru aðeins tæplega 8% ánægð með ákvörðun héraðsdóms, en skiptust þeir jafnt sem voru mjög ánægðir og frekar ánægðir. Tæplega 9%voru hvorki ánægð né óánægð.

Þeir sem sögðust óánægðir með úrskurðinn voru í kjölfarið spurðir hvaða niðurstaða þeir teldu að hefði verið réttlát.

Flestir eða rúm 38% töldu að sektir hefðu verið réttlátar.

Um 30% vildu að forstjórarnir yrðu dregnir til ábyrgðar og dæmdir fyrir þau brot sem lágu fyrir dómi án þess að tilgreina sérstaklega hvaða refsingar ættu að felast í dómnum.

Tæp 19% töldu að það hefði verið réttlát niðurstaða að kveða upp fangelsisdóm í málinu.

Tæp 7% vildu að málinu hefði verið leyft að fá meðferð og að því hefði verið lokið með dómsúrskurði í stað frávísunar.

Um 5% töldu réttlátt að forstjórunum yrði gert að bæta þann skaða sem neytendur urðu fyrir vegna verðsamráðs olíufélaganna. Vildu sumir að skaðabætur yrðu greiddar til samfélagsins eða neytenda, en aðrir endurgreiðslur í formi lækkaðs bensínverðs.

Innan við 4% sögðu samfélagsþjónustu vera réttláta niðurstöðu. Tæp 5% nefndu annað sem réttlát málalok.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert