Verjendur gagnrýna ónóga hlutlægni á rannsóknarstigi

Eftir Andra Karl andri@mbl.is
„Í þessum tölvubréfum, sem þarna voru lögð fram, virðast koma fram upplýsingar sem staðfesta það sem verjendur hafa verið að reyna að sanna með framlagningu gagna og haft mikið fyrir," sagði Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, eftir dómþing á 16. degi Baugsmálsins í gær. Verjendur gerðu alvarlegar athugasemdir við framlagningu gagna setts saksóknara, þ.e. að gögn sem innihalda „grundvallarupplýsingar" varðandi ákæruefni skuli vera í vörslum lögreglu en ekki lögð fram fyrr en á þessum tímapunkti.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, lagði fram tölvubréf úr tölvu Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, í tengslum við að Pálmi Kristinsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, bar vitni eftir hádegið. Sigurður Tómas sagðist hafa fundið bréfin um helgina – en tölva Tryggva er í vörslu lögreglu – og tengjast þeir viðskiptum NRP (Northern retail partner) og Baugs vegna rekstrarleyfis Debenhams á Íslandi.

„Það virðist vera að þau atriði sem við teljum að valdi því að óhugsandi sakfelling sé í þessum lið koma skýrt fram í þessum tölvupóstum," sagði Gestur eftir dómþingið og bætti við að það væri óafsakanlegt að þessi gögn væru í höndum lögreglunnar og verjendur fengju ekki að vita af þeim.

Gestur fór fram á það að saksóknari gerði grein fyrir því að bréfin væru fyrst lögð fram á þessum tímapunkti og sagði Sigurður Tómas að tölvubréf Tryggva væru gríðarlegt safn og hann hefði í raun fundið þessi bréf fyrir tilviljun. Hann útilokaði ekki að fleiri gögn leyndust í tölvu Tryggva. Spurði Gestur þá hvort ekki væri búið að fara í gegnum öll gögn og svaraði saksóknari því til að hann hefði talið svo vera.

„Ég trúi ekki að það sé ákært vegna NRP og það eru ekki lesnir póstar þar sem NRP kemur fyrir," sagði Gestur en saksóknari brást rólegur við gagnrýni hans og sagði Arngrími Ísberg dómsformanni að þetta raskaði ekki ákæruefninu að neinu leyti.

Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, mótmælti einnig og sagði að vinnubrögð lögreglu ættu að vekja menn til umhugsunar um hlutlægni á rannsóknarstigi. "Það er ekki einleikið hvað lögregla hefur verið fundvís á pósta sem koma ákærðu illa, en mun verr fundvís á þá sem koma þeim vel," sagði Jakob og benti á þá staðreynd að tölvubréf sem kæmu ákærðu vel hefðu öll verið lögð fram af þeirra hálfu, en ekki af hálfu ákæruvaldsins.

Saksóknari stakk þá upp á því að leggja fyrir dóminn rafræn afrit svo að dómarar gætu sannreynt hvort verjendur hafi rétt fyrir sér.

Gerðu samninga við erlendar verslunarkeðjur

Í framburði Pálma kom fram að hann var framkvæmdastjóri NRP á árunum 1999 og 2000 en það félag var systurfélag Smáralindar ehf. og var stofnað í þeim tilgangi að gera samninga við erlendar verslunarkeðjur vegna opnunar Smáralindar. NRP hafði m.a. gert samning við Debenhams en seldi Baugi sérleyfið vegna rekstursins. Þess í stað greiddi Baugur með kauprétti á hlutabréfum í Baugi, tíu milljónir að nafnvirði á genginu níu. Bréfin fékk NRP frá Gaumi.

Samkvæmt ákærunni er Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa látið veita fjárfestingarfélaginu Gaumi hundrað milljóna króna lán, en Jón skýrði svo frá við skýrslutöku að Gaumur hefði haft milligöngu um viðskiptin vegna Debenhams, og hefur það verið staðfest hjá fleirum.

Anna Þórðardóttir, endurskoðandi hjá KPMG, mætti einnig fyrir dóm í gær en hún sá um endurskoðun á einstökum þáttum í bókhaldi Baugs, s.s. árið 2000, en Stefán Hilmarsson, sem bar vitni sl. föstudag, stýrði vinnunni. Saksóknari spurði Önnu m.a. hvort henni hefði þótt eitthvað athugavert við hvernig lögregla stóð að skýrslutöku. Hún nefndi þá m.a. að tvö ár liðu á milli þess sem hún var yfirheyrð og að í aðeins tvö skipti af átta hafi löggiltur endurskoðandi verið til staðar. Þá gagnrýndi Anna Arnar Jensson, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjón, og aðferðir hans við yfirheyrslur auk framgöngu gegn henni sem sakborningi.

Í hnotskurn
Dagur 16
» Fjögur vitni voru leidd fyrir dóm í gær. Fyrst Anna Þórðardóttir endurskoðandi, þá Hildur Högnadóttir starfsmaður Icebank, Pálmi Kristinsson framkvæmdastjóri Smáralindar og Kristján Þorbergsson lögmaður.
» Gestur spurði Kristján m.a. út í Viðskiptatraust og viðskiptin milli SPRON og Baugs vegna Sparikortsins svokallaða.
»H ann staðfesti að samningar sem bornir voru undir hann og samningsdrög væru vegna þeirra viðskipta.
» Fyrir hádegi í dag kemur "leynifélagið" Fjárfar mest við sögu en stjórnarformaður þess, Helgi Jóhannesson, er fyrsta vitni dagsins.
» Einnig ber vitni Arnfinnur Sævar Jónsson, sem var skráður eigandi Fjárfars.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert