Hætt við annað framboð eldri borgara og öryrkja

Undirbúningshópur Áhugafólks um málefni eldri borgara og öryrkja hefur ákveðið að hætta við framboð tilAlþingis í vor. Segir í tilkynningu, að þessi niðurstaða hafi legið fyrir eftir að tilraun til að sameina þau tvö framboð um málefni eldri borgara og öryrkja, sem boðuð hafa verið, hafði mistekist.

Áður auglýstum fundi um framboðið sem boðaður var n.k. sunnudag á Hótel Sögu hefur því verið aflýst.

Í tilkynningunni segir, að undirbúningshópurinn telji að það geti aðeins spillt fyrir hagsmunum eldri borgara, t.d. með dreifingu atkvæða, ef tveir hópar vinni að framboðum um sama mál. Það væri heilbrigð skynsemi að sameina hópana og það var reynt. Það reyndist því miður ekki gerlegt.

Undirbúningshópur Áhugafólks um málefni eldri borgara og öryrkja hafi því staðið frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar að fara í framboð, þrátt fyrir að þá yrði um tvö framboð um málefnið að ræða og hins vegar að draga framboðið í hlé af virðingu við mikilvægi málefnisins. Að vandlega athuguðu máli telji undirbúningshópurinn það þjóna hagsmunum eldri borgara best, að aðeins eitt framboð um málaflokkinn verði til Alþingis í vor.

Undir tilkynningu á heimasíðu samtakanna skrifa Baldur Ágústsson, verslunarmaður, Guðbjörn Jónsson ráðgjafi og Baldur Ágústsson fv. forstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina