Bloggsíður Jónínu lagðar fram í réttinum

Arnar Jensson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Arnar Jensson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Golli

Afrit af bloggsíðum Jónínu Benediktsdóttur voru lagðar fram sem gögn í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af verjendum sakborninga. Skýrsla verður tekin af Jónínu í héraðsdómi síðar í dag.

Skýrsla var tekin af Arnari Jenssyni, sem hafði með höndum rannsókn Baugsmálsins þegar hann starfaði hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra en Arnar starfar nú hjá Europol.

Arnar svaraði meðal annars neitandi spurningum um hvort vitnum hefði liðið illa við yfirheyrslur lögreglu. Þá kannaðist hann ekki við, að Tryggvi Jónsson hefði verið matarlaus í langan tíma meðan á yfirheyrslum stóð, en það kom fram fyrr í réttarhaldinu. Hann vísaði því einnig á bug, að hann hefði haft í léttum hótunum við Önnu Þórðardóttur, endurskoðanda, þegar hún var kölluð í yfirheyrslu.

Arnar neitaði einnig að lögreglan hefði valið úr þá tölvupósta, sem hefðu verið óhagstæðir fyrir sakborninga og sagði að unnið hefði verið eftir ströngum reglum. Hann sagði, að nokkur dæmi væru um, að skýringar sakborninga á ýmsum lánveitingum, sem lögreglan taldi upplaglega hafa verið ólögmætar, hefðu verið teknar gildar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert