Var upplýsingum um húsleit í Lúxemborg lekið í fjölmiðla?

Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gengur í dómssal 101 …
Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gengur í dómssal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Skýrsla var tekin af Arnari Jenssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann hafði með höndum rannsókn Baugsmálsins þegar hann starfaði hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra en Arnar starfar nú hjá Europol. Arnar lýsti því hvernig verkaskipting hefði verið innan lögreglunnar í meðferð málsins og sagðist hann hafa gegnt hlutverki verkstjóra sem ákvað hver gerði hvað.

Arnar neitaði því að lögreglan hefði valið úr þá tölvupósta, sem hefðu verið óhagstæðir fyrir sakborninga og sagði að unnið hefði verið eftir ströngum vinnureglum lögreglunnar. Hann sagði, að nokkur dæmi væru um, að skýringar sakborninga á meintum lánveitingum, sem lögreglan taldi upphaflega hafi brotið í bága við lög um hlutafélög, hefðu verið teknar gildar.

Sumar útskýringar rannsakaðar en ekki aðrar
Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar spurði Arnar hvers vegna sumar útskýringar sakborninga á meintum ólöglegum lántökum hefðu verið rannsakaðar en ekki aðrar. Svaraði Arnar því til að það hefðu komið mjög margar útsýringar á þessu flókna máli frá sakborningum og viðurkenndi að þær hefðu ekki allar verið rannsakaðar.

Jón Gerald fékk ekki stöðu sakbornings í fyrstu
Gestur spurði einnig hvers vegna Jón Gerald hefði ekki fengið stöðu sakbornings um leið og það kom í ljós við fyrstu skýrslutöku lögreglunar í ágúst 2002 að hann væri sekur um að hafa gefið út tilhæfulausa reikninga. Arnar svaraði því til að þáverandi saksóknari hefði tekið þessa afstöðu, málið mun hafa verið rætt nokkrum sinnum á mismundandi stigum rannsóknarinnar.

Var upplýsingum um húsleit lekið í fjölmiðla?
Bæði Gestur og Sigurður Tómas spurðu Arnar hverjir hefðu vitað af ferð íslenskra lögreglumanna til Lúxemborgar þar sem húsleit var gerð á heimili Magnúsar Guðmundssonar bankastjóra Kaupþings þar í landi og hvernig hefði staðið á því að blaðamaður Morgunblaðsins hefði haft vitneskju um húsleitina áður en hún fór fram.

Margir hefðu getað rofið trúnað
Arnar svaraði því til að það hefðu verið margir sem vissu um þessa ferð. Fyrir utan starfsmenn efnahagsbrotadeildar og fleiri starfsmenn ríkislögreglunnar voru bæði starfsmenn Deloitte & Touche og starfsmenn lögreglunnar í Lúxemborg sem og íslenskur lögfræðingur sem starfar þar ytra sem leitað var til með fræðslu um réttarkerfið í því landi. Sá lögfræðingur hefði síðan haft samband og sagst ekki geta tekið að sér verkefnið þar sem hann starfaði fyrir Baug Group í ýmsum málum. Benti Arnar á að rannsókn á þessum meinta leka hefði ekki leitt til neinnar niðurstöðu en að ljóst er að það voru margir sem hefðu getað rofið trúnað lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert