Sagðist hafa heyrt að Baugur ætti að borga bátinn

Jónína Benediktsdóttir sagði m.a. í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að hún hefði heyrt það „í umræðum heima hjá sér" að Jón Gerald Sullenberger ætti að útbúa reikninga á Baug vegna þess að ákveðið hafi verið að Baugur borgaði af lánum vegna kaupa á bátnum Thee Viking en lánið, sem tekið var fyrir bátnum, var á nafni Jóns Geralds vegna þess að hann hafði tengsl við viðkomandi banka.

Jónína var m.a. spurð um tengsl hennar við Baugsmálið svonefnda og kom fram hjá henni, að hún hefði farið að hjálpa Jóhannesi Jónssyni við tölvunotkun árið 2001. Þá hafi hún séð tölvupósta, sem bentu til þess að eitthvað stórkostlegt væri að í rekstrinum. Sagði hún að Jóhannes hefði m.a. rætt þetta við Tryggva Jónsson.

Jónína sagðist hafa kynnst Jóni Gerald Sullenberger í Flórída. Hún sagðist aðspurð að hún hefði ekki ekki vitað að Jón Gerald ætlaði að ræða við lögreglu fyrr en í þann mund sem það gerðist. Þá sagðist hún aðspurð hafa aðstoðar Jón Gerald við að fá lögfræðing og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi bent á Jón Steinar Gunnlaugsson. Hann hafi þó ekki verið fyrsti lögfræðingurinn, sem leitað var til.

Jónína ræddi um tengsl Baugsmanna við nánast alla sem máli skiptu á landinu á þessum tíma. Sagðist hún m.a. hafa haft áhyggjur af tengslum þeirra við ríkisstjórnina og orðið vitni að því, þegar Jón Ásgeir og Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, hefðu komið hlæjandi af fundi Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, yfir þessum trúgjarna forsætisráðherra, sem tryði því að álagning á matvöru væri 8% þegar hún væri í rauninni 100%.

Jónína sagðist hafa rætt við Jón Gerald um tengsl Davíðs við Baugsmenn, sem snérust um það af hálfu Baugsmanna, að ná tökum á ríkisstjórninni.

Jónína var einnig spurð út í bátinn Thee Viking og hvort hún hefði verið með þegar báturinn var keyptur. Sagðist Jónína ekki vita betur en að til hafi staðið að feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson ættu bátinn ásamt Jóni Gerald. Kaupin á bátnum hefðu verið fjármögnuð með lánum á nafni Jóns Geralds vegna þess að hann hefði tengsl við bankann.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, lagði m.a. fram afrit af 8 blogggreinum, sem Jónína kannaðist við að hafa skrifað, og afrit af frétt í Fréttablaðinu árið 2005 undir fyrirsögninni: Eyddu fingraförum Morgunblaðsins. Jónína sagði, að í frétt blaðsins af tölvupóstsamskiptum hennar vantaði alvarlega hluti bæði framan og aftan við. Ástæðan fyrir því, að hún hefði nefnt Davíð Oddsson í tölvupóstinum hefði komið fram í þeim hluta tölvupóstsins sem vantaði.

Jakob R. Möller, verjandi Tryggva, vakti athygli réttarins í því, að það sem kæmi fram í bloggfærslum Jónínu sýndi fram á hversu ótrúverðugt vitnið væri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert