Enginn flötur á því að ákæra aftur segir verjandi Kristins Björnssonar

Kristinn Björnsson.
Kristinn Björnsson. mbl.is

Ragnar Hall, fyrrverandi verjandi Kristins Björnssonar, fyrrum forstjóra Skeljungs, segist ánægður með dóm Hæstaréttar í dag í máli gegn núverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaganna, og segist aðspurður ekki sjá neinn flöt á því að ákæra aftur í málinu. Ákæruvaldið fari ekki aftur af stað þegar búið sé að lýsa málið andstætt Mannréttindasáttmálanum.

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá ákæru gegn þremur núverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaga, m.a. Kristni. Einn dómaranna, Gunnlaugur Claessen, var sammála meirihlutanum en með öðrum rökstuðningi. „Meirihlutinn leggur aðaláherslu á að málshöfðunin og þessi málarekstur sé andstæður Mannréttindasáttmálanum en Gunnlaugur leggur áherslu á að verknaðarlýsingin í ákærunni sé ófullnægjandi,“ segir Ragnar.

Báðar röksemdir hafi þó verið í málsvörninni. „Meirihlutinn telur ekki meira þurfa til að henda málinu út en að málarekstur sé andstæður Mannréttindasáttmálanum,“ segir Ragnar, hann sé í raun að segja að aldrei hafi verið efni til að fara í svona mál. Það sé verið að nota í refsimáli gögn, sem aflað var í annars konar máli, þar sem verið var að semja við menn um niðurstöðu í samkeppnismáli. Þau gögn séu síðan notuð af lögreglunni aftur.

„Meginatriðið er að málshöfðun á þessum grundvelli, að fara fyrst í gegnum þetta ferli í samkeppnismálinu og ætla síðan á grundvelli þeirra gagna sem þar er aflað að draga einstaklinga fyrir dóm, er andstætt Mannréttindasáttmálanum,“ segir Ragnar.

mbl.is