Niðurstaða Hæstaréttar endanleg segir saksóknari

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Brynjar Gauti

„Niðurstaða í þessu máli er endanleg og það er dómur Hæstaréttar sem ræður úrslitum," segir Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, um dóm Hæstaréttar þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa beri frá ákæru á hendur fyrrverandi og núverandi forstjórum olíufélaganna. Aðeins sé ein rannsókn til, til að byggja á, og hún sé ekki fullnægjandi samkvæmt dóminum. Hvorki sé við lögreglu né samkeppnisyfirvöld að sakast.

Niðurstaða dómsins hafi verið sú að meðferð málsins, fyrst rannsókn samkeppnisyfirvalda frá 2001-2003 og svo lögreglurannsókn, hafi verið það ófullkomin varðandi tryggingu réttar sakborninga að ekki væri hægt að byggja ákæru á henni.

„Það var búið að benda á þetta af lögreglu og ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari var búinn að gera athugasemdir við að þetta væri óheppilegt fyrirkomulag, strax þegar málið kom upp hjá lögreglu árið 2003," segir Helgi Magnús. Lögreglu og samkeppnisyfirvöldum beri að vinna samkvæmt lögum og lögin um þetta séu ófullnægjandi að mati Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina