Segist ekki hafa verið beittur þrýstingi til að taka að sér mál Jóns Geralds

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari og fyrrverandi hæstaréttarlögmaður, segir í yfirlýsingu að hann hafi ekki orðið fyrir nokkrum þrýstingi um að taka að sér mál Jóns Geralds Sullenbergers á árinu 2002 eins og Ingibjörg Pálmadóttir bar fyrir rétti í Baugsmálinu í dag.

Yfirlýsing Jóns Steinars er eftirfarandi:

    Í fréttum af yfirheyrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Ingibjörgu Pálmadóttur í dag, mánudag, er haft eftir henni að ég hafi sagt henni að ég hefði orðið fyrir þrýstingi frá svo mörgum mönnum að ég hefði ekki getað vísað Jóni Gerald Sullenberger að leita annars lögmanns, þegar hann leitaði til mín á árinu 2002. Af þessu tilefni er óhjákvæmilegt að ég taki fram, að Ingibjörg fer ekki með rétt mál, þegar hún segir þetta. Ég varð ekki fyrir nokkrum þrýstingi hvað þetta snertir og hafði ekki orð á neinu slíku við hana. Ástæðan fyrir því að ég tók mál Jóns að mér var einkum sú að hann var einstaklingur, búsettur erlendis, sem þurfti að fá lögmann til að fara með bótamál gegn mesta viðskiptaveldi á Íslandi, líklega frá upphafi vega. Hann þekkti ekki mikið til hérlendis og mér var sagt að hann ætti í erfiðleikum með að finna lögmann sem ekki væri tengdur þeim efnuðu mönnum sem hann átti sökótt við eða óttaðist þá. Það höfðaði til mín við þessar aðstæður að hjálpa honum við að ná fram rétti sínum væri sá réttur til staðar.

    Reykjavík, 19. mars 2007,
    Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttarlögmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert