Tekjuauki Hafnfirðinga af stækkun álvers 3,4-4,7 milljarðar króna

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík mbl.is/Árni Sæberg

Tekjuauki Hafnfirðinga af stækkun álvers Alcan, að meðtöldum heildartekjum af Straumvíkurhöfn, liggur á milli 3,4-4,7 milljarða króna eða sem svarar til 140-200 þúsund króna á hvern Hafnfirðing. Þá er gert ráð fyrir að framleiðsla í álverinu hefjist árið 2011 og að álverið verði rekið í 50 ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið fyrir Hafnarfjarðarbæ vegna mögulegrar stækkunar álvers Alcan í Straumsvík.

Samkvæmt skýrslunni er tekjuauki bæjarins á hverju ári metinn á 170-230 milljónir kr. eða sem svarar til 6-8 þúsund kr. á hvern Hafnfirðing.

Samkvæmt greiningu Hagfræðistofnunar vegur fasteignaskattur þyngst, en einnig tekjuaukning vegna meiri umferðar um höfnina. Þá mun Hafnarfjörður spara um 560 milljónir kr. að núvirði við það að háspennulínur verði lagðar í jörð. Þennan ábata verða Hafnfirðingar að vega á móti umhverfistjóni er hlýst af stækkun álversins, s.s. mengun, sjónrænum áhrifum eða því raski er hlýst af breytingum á flutningskerfi rafmagns, samkvæmt skýrslunni.

Tekjur af höfninni í Straumsvík má samkvæmt hafnalögum aðeins nýta til reksturs hafna og endurbóta á þeim. Ef þessum tekjum er sleppt, nemur tekjuaukinn 2,2 milljörðum króna, eða um 90 þúsund krónum á hvern bæjarbúa. Á ári hverju yrði tekjuauki bæjarbúa þá samtals 110 milljónir króna, eða um 4 þúsund krónur á mann, að því er segir í skýrslunni.

Ef álverinu verður lokað 2014 nemur tekjutap Hafnarfjarðar 600 milljónum króna

Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að álverið hætti starfsemi ef ekki verður af stækkun þess. Fari svo og álverið loki árið 2014 gæti núvirt tekjutap Hafnarfjarðarbæjar numið um 600 milljónum kr. Bróðurpartur þess taps, eða um 450 milljónir kr., kæmi fram í formi tapaðra útsvarstekna en afgangurinn vegna lægra fasteignaskatts.

Í skýrslunni er tekið fram að greiningin takmarkast við þann tíma sem álverið er í rekstri, en lítur hvorki til þeirra svæðisbundnu áhrifa sem stækkunin hefur á hag Hafnfirðinga á framkvæmdatíma né þeirra þjóðhagslegu áhrifa sem bygging álversins og tilheyrandi virkjana hafa á íslenska hagkerfið.

Ekki tekið tillit til umhverfisskaða

„Gert er ráð fyrir að framleiðsla í álverinu hefjist árið 2011 og að álverið verði rekið í 50 ár. Reksturinn fyrstu 25 árin er talin verða áhættulítill, en síðari hluta tímabilsins er annars vegar miðað við áhættulítinn rekstur og hins vegar við að helmingslíkur séu á að álverið hætti rekstri.

Hafa ber nokkur veigamikil atriði í huga þegar niðurstöður eru túlkaðar. Í fyrsta lagi hefur í þessari greiningu ekki verið tekið tillit til þess umhverfisskaða sem stækkunin veldur. Því tjóni má skipta í skaða vegna aukinnar útblástursmengunar, skerðingu á nýtingu lands vegna rafmagnslína og tengivirkis og þeirrar sjónmengunar sem leiðir af lagningu nýrra rafmagnslína og tengivirkis og byggingu stærra álvers. Á hinn bóginn er ekki gerð tilraun til að meta þann ábata sem hlýst af því að færa núverandi Ísallínu og Kolviðarhólslínu 2. Þá er ekki heldur litið til þess hugsanlega ávinnings sem minnkun þynningarsvæðis gæti haft á nýtingu lands. Bent skal á að greiningin tekur ekki til margfeldisáhrifa álversins á störf og tekjur í Hafnarfirði, enda er litið svo á að þeir framleiðsluþættir sem tengjast stækkun álvers myndu nýtast annars staðar ef ekki verður af stækkuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert