Segir álver við Húsavík rúmast innan marka sjálfbærrar þróunar

Grafið í Bakka við Húsavík þar sem hugsanlega mun rísa …
Grafið í Bakka við Húsavík þar sem hugsanlega mun rísa álver þegar fram líða stundir. mbl.is/Hafþór

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði á málþingi á Húsavík í dag að vel hugsanlegt væri að álver rísi í Þingeyjarsýslu. Það álver myndi fá raforkuna frá jarðhitavirkjun og bygging slíks orkuvers hefði ekki áhrif á umhverfið þar um slóðir. Sagðist Valgerður vera þeirrar skoðunar, að um væri að ræða atvinnustarfsemi sem rúmist vel innan marka sjálfbærrar þróunar.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá tvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Markþingi, sem stóðu fyrir málþinginu, sagði Valgerður, að stærsta verkefnið í íslenskum stjórnmálum næstu áratugi væri að skapa forsendur fyrir öfluga þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs innan marka sjálfbærrar þróunar.

Sagði Valgerður, að hugtakið sjálfbær þróun fæli það í sér, heimilt væri að nýta auðlindir og umhverfi en þeirri nýtingu yrði þó að setja þær skorður að ekki mætti ganga á möguleika framtíðarkynslóða til þess að nýta og njóta þessara gæða.

Sagði hún að raunhæfasti kosturinn í stöðunni væri að nýta orkuna á svæðinu til orkufreks iðnaðar, einkum álframleiðslu. „Það er því vel hugsanlegt að hér í Þingeyjarsýslu muni rísa álver. Þetta álver myndi fá raforkuna frá jarðhitavirkjun og bygging slíks orkuvers myndi ekki hafa áhrif á umhverfið hér um slóðir... Er hér því ekki um að ræða atvinnustarfsemi sem rúmast vel innan marka sjálfbærrar þróunar? Ég er eindregið þeirrar skoðunar.”

Auk utanríkisráðherra fluttu framsöguerindi Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslunnar og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofu að Skriðuklaustri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert