Kreditreikningur upp á tugi milljóna fjarstæðukenndur

Sigurður Tómas Magnússon hefur haldið ræðu sinni áfram í dag.
Sigurður Tómas Magnússon hefur haldið ræðu sinni áfram í dag. mbl.is/G. Rúnar Guðmundsson

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, hélt áfram ræðu sinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fyrir hádegið fjallaði hann m.a. um viðskipti Baugs við Nordica Inc., fyrirtæki Jóns Geralds Sullenbergers, og verslunina SMS í Færeyjum. Sagði Sigurður Tómas meðal annars, að 63 milljóna króna kreditreikningur, sem Jón Gerald gaf út, væri fjarstæðukenndur og stæðist ekki því þá hefði Jón Gerald verið að undirrita yfirlýsingu um eigið gjaldþrot.

Í málinu eru Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, ákærðir fyrir að láta færa tæpar 62 milljónir króna til eignar á viðskiptamannareikningi Nordice Inc. í bókhaldi Baugs og til tekna hjá Baugi, sem lækkuð vörukaup. Þetta hafi verið gert á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings frá Nordica, sem Jón Gerald Sullenberger útbjó en Jón Gerald er ákærður fyrir það.

Sigurður Tómas sagði að Jón Gerald hefði viðurkennt fyrir dómi, að hafa gefið út tilhæfulausan kreditreikning og með játningu hans teldist sannað að hann hafi framið þau brot. Jón Gerald hefði að minnsta kosti haft grun um að refsiverð háttsemi kæmi til vegna athafna hans og látið sér það í léttu rúmi liggja.

Þá sagði saksóknari að skýringar Jóns Ásgeirs og Tryggva og annarra á reikningnum stæðust ekki.

Vísaði Sigurður Tómas til skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte um hvaða áhrif þessi reikningur hefði haft á afkomu Baugs og þau áhrif hefðu skilað sér beint inn í tilkynningar til Verðbréfaþings.

Einnig fjallaði Sigurður Tómas um tæplega 47 milljóna kreditfærslu frá SMS í Færeyjum sem hefði verið færð í bókhald Baugs ásamt kreditreikningnum frá Nordica. Við húsleit hjá SMS hefði kredityfirlýsingin fundist og Hans Mortensen hefði borið að hafa gefið hana út samkvæmt ósk Tryggva Jónssonar. Kredityfirlýsingin hefði hins vegar ekki byggt á neinum viðskiptum við Baug þótt þetta hafi verið fært til inneignar í bókhaldi félagsins.

Gert er ráð fyrir að Sigurður Tómas ljúki ræðu sinni í dag en á morgun taki verjendur sakborninga til máls. Málflutningi á að ljúka á fimmtudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert