Hægt að tvöfalda Suðurlandsveg fyrir 7,5 milljarða

Hægt er að gera 2+2 Suðurlandsveg sem felur í sér framtíðarlausn sem tryggir öryggi vegfarenda fyrir 7,5–8 milljarða kr. Þetta er niðurstaða Ístaks sem unnið hefur hönnunar- og kostnaðaráætlun fyrir slíkan veg í samvinnu við Sjóvá.

Vegagerðin kynnti nýverið að kostnaður við gerð 2+2 vegar væri 13,5 milljarðar og 2+1 vegur kostaði 5,8 milljarða. Útfærsla Ístaks er talsvert önnur en Vegagerðarinnar. Ístak leggur til að hringtorg verði sett upp á leiðinni út frá Reykjavík og milli Hveragerðis og Selfoss. Vegagerðin gerði hins vegar ráð fyrir mislægum gatnamótum. Þá leggur Ístak til að 2,5 metrar verði á milli akstursleiða en Vegagerðin gerði ráð fyrir 11 metrum. Ásgeir Loftsson, verkfræðingur hjá Ístaki, segir að með útfærslunni sé hægt að spara fyllingarefni og lækka kostnað.

Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, segir að hægt sé að byggja mislæg gatnamót í stað hringtorga síðar. Við hönnun vegarins studdist Ístak við slysatölur frá Sjóvá. Þetta samstarf skilaði m.a. því að Ístak gerir ráð fyrir að ljósastaurar verði inni á milli vegriða sem verða á milli akstursleiða. Þór segir að tölur Sjóvár bendi til þess að kostnaður við árekstur á ljósastaura á Reykjanesbraut sé um 100 milljónir á ári.

Ístak telur unnt að undirbúa og vinna allt verkið á þremur árum og reiknar með þrennum mislægum gatnamótum milli Gunnarshólma og Hveragerðis og þar verði umferðin óhindruð. Þessi kafli vegarins er 28 km langur.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert