Læknar vilja þyrlu á Akureyri

Þyrla Landhelgisgæslunnar
Þyrla Landhelgisgæslunnar mbl.is/Skapti

Á stjórnarfundi Læknafélags Íslands þann 27. mars sl. var meðfylgjandi ályktun samþykkt:

„Stjórn Læknafélags Íslands fer fram á það við stjórnvöld að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri.

Í nútímasamfélagi eru gerðar kröfur um að bráðveikum og slösuðum verði komið undir læknishendur á sem stystum tíma og að íbúar landsins sitji við sama borð. Þetta á að sjálfsögðu við um leitar- og björgunarstörf sem eru ríkur þáttur í starfsemi þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar.

Björgunarþyrluþjónusta sem einungis er gerð út frá Reykjavík er of svifasein vegna langs flugtíma til að geta sinnt bráðaþjónustu fyrir norður og austur hluta landsins.

Miðhálendið skiptir landinu í tvö megin veðursvæði. Þyrluflug yfir hálendið er oft erfitt vegna veðurskilyrða og ísingar. Lágflug með ströndum er tafsamt og getur verið varasamt. Með því að staðsetja þyrlu á Akureyri er verið að stytta viðbragðstíma þyrlu til íbúa norður- og austurlands verulega og einnig til hafsvæðisins úti fyrir. Vekja ber einnig athygli á norðurhluta hálendisins, en þar er umferð sívaxandi. Við slys og þá sérstaklega sjóslys getur hver mínúta skipt þann máli, sem í háska hefur lent.

Um mönnun lækna er það að segja, að rekstur sjúkraflugs undanfarin ár með miðstöð á Akureyri hefur sýnt, að á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er fullnægjandi mannafli fyrir þessa þjónustu.

Markmið sérhæfðar þyrluþjónustu sem þessarar hlýtur að vera að tryggja öllum landsmönnum sem besta þjónustu. Það er álit stjórnar Læknafélags Íslands að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar á einum stað á suðvesturhorninu mæti ekki þessari kröfu,” að því er segir í ályktun félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina