Ekki sýnt fram á að greiðslur til Nordica hafi verið vegna báts

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sagði í varnarræðu sinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að það væri fjarlægt að ákæruvaldið hafi sýnt fram, að mánaðarlegar greiðslur frá Baugi til Nordica Inc. á árunum 2000 til 2002 hafi farið í rekstur skemmtibátsins Thee Viking á Miami.

Þá sagði Gestur að því síður hafi verið sýnt fram á að þeir Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson hafi haft ásetning um að láta Baug greiða kostnað við bátinn. Ákæruvaldinu bæri að sanna slíkt og allan vafa bæri að skýra ákærðu í hag.

Gestur sagði, að bæði Jón Ásgeir og Tryggvi hefðu þegar í fyrstu yfirheyrslum hjá lögreglu greint frá því, að mánaðarlegir reikningar frá Nordica hafi verið greiðslur fyrir þjónustu, sem Nordica veitti Baugi. Þannig hafi Tryggvi borið, að upphaflega hafi verið greiddir 8000 dalir á mánuði til að takmarka taprekstur Nordica og Jón Ásgeir hafi borið hjá ríkislögreglustjóra, að hann hefði viljað virkja rekstur Nordica áfram og gert samkomulag um að Baugur styrkti rekstur Nordica gegn því að Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Nordica, leitaði áfram að viðskiptasamböndum í Bandaríkjunum. Þessum fjármunum hafi Jón Gerald ráðstafað sjálfur.

Gestur sagði, að það þegar mönnunum bæri efnislega saman í upphafi kynni nú að vera, að þeir hefðu hreinlega verið að segja satt. Lögreglan og ákæruvaldið hefðu síðan farið í ótal hlykki til að reyna að tengja þetta öðrum málum.

Þá sagði Gestur, að þeir Jón Ásgeir og Tryggvi hefðu efnislega staðfest þessa upphafsframburði sína fyrir dómi og því væri ekki rétt hjá ríkissaksóknara, að þeir hafi orðið margsaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert