Færa íbúum Hofsóss og nágrennis sundlaug

Skrifað var undir viljayfirlýsingu í gær á milli sveitarfélagsins Skagafjarðar, Lilju Pálmadóttur, Hofi á Höfðaströnd, og Steinunnar Jónsdóttur, Bæ á Höfðaströnd, um að þær Lilja og Steinunn færi íbúum Hofsóss og nágrennis 25 metra sundlaug að gjöf með tilheyrandi aðstöðu.

Sagt er frá þessu í héraðsfréttablaðinu Feyki í dag. Þar er haft eftir Guðmundi Guðlaugssyni, sveitarstjóra, að sveitarstjórnin muni gera það sem í hennar valdi standi til þess að haga málum þannig að framgangur þessarar byggingar geti verið sem skjótastur.

Stefnt er að opnun laugarinnar sumarið 2008. Sveitarfélagið skuldbindur sig til þess að hraða vinnu við aðalskipulag þéttbýlis á Hofsósi. Jafnframt mun sveitafélagið greiða götu  gefenda í þessu máli sem kostur er. Auk þess sem sveitarfélagið mun sjá um rekstur sundlaugarinnar að verkinu loknu.

Fram kemur í Feyki að unnið sé að gerð ítarlegs samnings um verkefnið en hönnun og endanleg kostnaðaráætlun fari fram á næstu vikum. Að því loknu verði framkvæmdin boðin út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert