Taugatitringur fyrir álverskosningar

Forsvarsmenn Alcan og Sólar í Straumi segja taugarnar vera orðnar þandar fyrir álverskosningarnar á morgun, þ.e. þegar Hafnfirðingar munu kjósa með eða á móti stækkun álversins í Straumsvík. Búist er við góðri kosningaþátttöku og þá eru menn sammála um að kosningarnar verði tvísýnar.

Eins og fram hefur komið hafa íbúar Hafnarfjarðar einir kosningarétt í kosningunum þar sem verið er að greiða atkvæði um fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu, sem geri ráð fyrir stækkun álvers Alcan í Straumsvík í 460 þúsund tonna ársframleiðslu.

Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar 31. janúar 2007 verður niðurstaða kosninganna bindandi og mun ráða því hvort fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga, sem er samþykkt til auglýsingar, verði sett í auglýsingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

Í kosningunum 31. mars verður í fyrsta sinn í Hafnarfirði notast við rafræna kjörskrá. Það þýðir að kjósendur eru ekki lengur bundnir af kjördeildum heldur geta nú farið á hvaða kjörstað sem er til að kjósa. Á kjörskrá eru 16.648 manns.

Kjörstaðir eru þrír, Áslandsskóli, Íþróttahúsið við Strandgötu og Víðistaðaskóli. Kjörfundur hefst kl. 10 og stendur til kl. 19.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram að Strandgötu 6, 2. hæð. Síðasti dagurinn til að kjósa utan kjörfundar í dag og er það hægt til kl. 16.

Talning fer fram í íþróttahúsinu við Strandgötu og reiknað með fyrstu tölum upp úr kl. 19.

Kynning Alcan um stækkun álversins í Straumsvík má sjá hér.

Vefsíða Sólar í Straumi má sjá hér.

Upplýsingar um virkjun Þjórsár má sjá á vef Landsvirkjunar.

Vefsíða Hags Hafnarfjarðar má sjá hér.

mbl.is