Kosið um framtíð álversins í Hafnarfirði

Tölvugerð mynd af stækkuðu álveri.
Tölvugerð mynd af stækkuðu álveri.

Í dag greiða Hafnfirðingar atkvæði með eða á móti stækkun álversins í Straumsvík. Að sögn bæjaryfirvalda í Hafnarfirði hefur kosningin farið vel af stað en hún hófst kl. 10, og hefur umferðin dreifst jafnt yfir kjörstaðina þrjá. Kl. 11 voru 1.057 búnir að kjósa. 1.195 voru búnir að kjósa utankjörfundar, en utankjörfundaratkvæðagreiðslunni lauk kl. 16 í gær. 16.648 eru á kjörskrá í Hafnarfirði.

Búist er við afar tvísýnum og spennandi kosningum. Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar verður niðurstaðan bindandi og mun ráð því hvort fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga, sem er samþykkt til auglýsingar, verði sett í auglýsingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

Þá verður í fyrsta sinn í kosningunum notast við rafræna kjörskrá, sem þýðir að kjósendur eru ekki lengur bundnir af kjördeildum heldur geta nú farið á hvaða kjörstað sem er til þess að kjósa.

Hægt er að greiða atkvæði í Áslandsskóla, Íþróttahúsinu við Strandgötu og í Víðistaðaskóla. Kjörfundur hófst sem fyrr segir kl. 10 og stendur hann kl. 19, en þá verða fyrstu tölur birtar.

mbl.is