Skoðað verði að færa eignarhald á ríkis á orkufyrirtækjum til einkaaðila

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur í ályktun um umhverfis og auðlindanýtingu til, að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða. Talsverðar umræður urðu um þetta, bæði á landsfundinum sjálfum og í starfshópi um auðlindamál.

Í ályktuninni er einnig hvatt til þess, að við endurskoðun á almannarétti til umgengni um náttúru Íslands verði þjóðlendulöggjöfin tekin til endurskoðunar með það að markmiði að vafi um eignarhald á landi verði túlkaður landeigendum í vil, enda sé það grundvallar sjónarmið Sjálfstæðisflokksins að nýting lands og auðlinda verði best fyrirkomið í höndum einkaaðila. Á grundvelli endurskoðaðra sönnunarreglna verði farið yfir þau mál þar sem hugsanlegt er að önnur niðurstaða fengist varðandi þjóðlendur sem náð hafa inn fyrir þinglýst landamerki jarða.

Þá er í ályktuninni fagnað þeim áföngum, sem náðst hafa í náttúruvernd undir forystu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, þar sem hæst beri stofnun stærsta þjóðgarðs í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðs og tilnefningu Surtseyjar í Vestmannaeyjum á heimsminjaskrá UNESCO.

Ályktun um umhverfismál og auðlindanýtingu

mbl.is

Bloggað um fréttina