Engin tenging við deilumál

Í norskum fjölmiðlum hafa ýmsir, m.a. Jan Pettersen, fyrrverandi utanríkisráðherra og talsmaður Hægriflokksins í utanríkismálum, kallað eftir því að tengja samkomulag, sem náðst hefur um öryggis- og varnarmál, við deilumál Íslands og Noregs á sviði fiskveiða og auðlindanýtingar. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru engar slíkar tengingar nefndar í samkomulaginu við Noreg og ekki heldur yfirlýsingunni um samstarf við Dani.

Ríkisstjórnin fjallaði um samkomulögin á fundi sínum í gærmorgun. Að þeim fundi loknum var málið kynnt fyrir utanríkismálanefnd Alþingis. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, eini nefndarmaðurinn sem lýsti efasemdum.

Ekki herseta

„Þetta snýst fyrst og fremst um öryggismál á friðartímum," segir Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra um samningana við Noreg og Danmörku. „Með þessu skrefi hafa þjóðirnar staðfest sameiginlega hagsmuni og framtíðarsýn í N-Atlantshafi."

Valgerður segir af og frá að um verði að ræða norska eða danska hersetu á Íslandi. „Það er fyrst og fremst verið að formfesta ákveðið samstarf sem hefur að talsverðu leyti verið fyrir hendi. Það má halda því fram að við hefðum átt að vera búin að vinna þessa vinnu fyrr."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert