Vorhreinsun í Reykjavík hefst um helgina

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, kynnti í dag árlega vorhreinsun í Reykjavík, sem verður 28. apríl til 5. maí en þá leggja starfsmenn hverfastöðva framkvæmdasviðs borgarinnar garðeigendum lið og fjarlægja garðaúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk. Vilhjálmur tók til í garðinum sínum í dag þótt ekki viðraði sérlega vel fyrir garðvinnu.

Borgarstjóri hvetur garðeigendur til að nota tækifærið og klippa þann gróður sem vex út fyrir lóðamörk og hindrar umferð. Góður frágangur flýtir fyrir vorhreinsun og eru garðeigendur beðnir um að binda greinaafklippur í knippi og setja garðaúrgang í poka. Starfsmenn hverfastöðvanna verða á ferð um borgina alla vikuna og geta garðeigendur hvenær sem er til og með 5. maí sett garðaúrgang út fyrir lóðamörk. Allt að 50 manns koma að vinnunni og nýta til þess 16 vinnuflokkabíla, 5 vörubíla og 8 traktorsgröfur.

Garðaúrgangur fer á jarðvegslosunarsvæði Reykjavíkurborgar og sömu leið fara trjágreinarnar eftir að þær hafa verið kurlaðar. Kurlið, ásamt því sem til fellur frá grasslætti í sumar, verður notað til að þekja yfirborð á jarðvegstipp og hefur það reynst góður grunnur fyrir sáningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert