Yfirlýsing um samstarf Íslendinga og Dana undirrituð

Per Stig Möller og Valgerður Sverrisdóttir eftir að hafa skrifað …
Per Stig Möller og Valgerður Sverrisdóttir eftir að hafa skrifað undir yfirlýsinguna.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Per Stig Möller, utanríkisráðherra Dana, skrifuðu í Ósló í dag undir yfirlýsingu um samstarf þjóðanna í öryggis og varnarmálum og um almannavarnir. Fyrr í dag skrifaði Valgerður undir samkomulag við Norðmenn um sama efni.

Í yfirlýsingunni er, eins og í samkomulaginu við Norðmenn, vísað til aðildar Íslands og Danmerkur að Atlantshafsbandalaginu og þeirra skuldbindinga sem af því leiða, og áhersla lögð á þá viðleitni Íslands, Danmerkur og Noregs að stuðla að auknu öryggi og stöðugleika á Norður-Atlantshafi.

Tilgangur yfirlýsingarinnar er að staðfesta að til staðar séu sameiginlegir hagsmunir og framtíðarsýn ríkjanna varðandi öryggismál á Norður-Atlantshafi, sem gætu orðið grundvöllur frekara samráðs, samhæfingar og samstarfs sem skilaði meiri samlegð í viðbúnaði.

Stefnt er að því að efla samstarf ríkjanna, meðal annars með reglubundnum fundum embættismanna og sérfræðinga, og ákvörðun boðleiða á milli ráðuneyta og stofnana. Lögð er áhersla á menntun og þjálfun starfsliðs, aukið samstarf varðandi leit og björgun og á sviði almannavarna, og skipti á trúnaðarupplýsingum. Þá er stefnt að því að auka heimsóknir og æfingar flugvéla, skipa og sérsveita.

Vísað er til þess, að Ísland og Danmörk hafi þegar komið á nytsamlegu samstarfi um öryggis- og varnarmál og almannavarnir. Sem dæmi megi nefna samkomulagið frá 11. janúar 2007 um samstarf á sviði eftirlits með fiskveiðum og mengun og á sviði liðsmannaskipta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert