Guðjón Ólafur: „Umfjöllun má ekki einkennast af dylgjum"

Guðjón Ólafur Jónsson, alþingismaður hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings DV í dag, sem m.a. var vísað til í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld. Þar ítrekar hann m.a. að mál stúlku sem fékk ríkisborgararétt eftir fimmtán mánaða dvöl á Íslandi hafi fengið að öllu leyti eðlilega og sambærilega afgreiðslu í allsherjarnefnd eins og öll önnur mál um ríkisborgararétt sem þar voru til umfjöllunar fyrir þinglok. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Í tilefni af fréttaflutningi DV í dag, sem m.a. var vísað til í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld, tel ég nauðsynlegt að taka eftirfarandi fram:

    Lýsing á því hvernig staðið var að meðferð og afgreiðslu mála í undirnefnd allsherjarnefndar Alþingis, þ.m.t. talið þess máls sem fréttin fjallar um að öðru leyti, er röng. Niðurstaða undirnefndar allsherjarnefndar í hverju tilviki um hvort lagt skuli til að ríkisborgararéttur verði veittur eða ekki er sameiginleg niðurstaða þeirra þriggja þingmanna sem þar sitja, eftir atvikum að undangengnum umræðum. Umrætt tilvik var í engu frábrugðið öðrum að því leyti. Beitti ég umrædda nefndarmenn hvorki þrýstingi við afgreiðslu málsins né var beittur þrýstingi af þeim eða öðrum.

    Ég ítreka það sem áður hefur verið haft eftir mér, Bjarna Benediktssyni og Guðrúnu Ögmundsdóttur að umrætt mál fékk að öllu leyti eðlilega og sambærilega afgreiðslu í allsherjarnefnd eins og öll önnur mál um ríkisborgararétt sem þar voru til umfjöllunar fyrir þinglok. Hefur það og verið staðfest með tölfræðilegum gögnum frá allsherjarnefnd að afgreiðsla málsins var á engan hátt sérstök og efnisleg rök að baki veitingu ríkisborgararéttar sambærileg fjölda annarra tilvika.

    Þrátt fyrir að það sé utan verksviðs allsherjarnefndar er rétt að nefna að til viðbótar hefur verið staðfest af hálfu dómsmálaráðuneytis og Útlendingastofnunar að afgreiðsla umræddrar umsóknar var sambærileg við afgreiðslu annarra umsókna sem berast ráðuneytinu skömmu fyrir þinglok.

    Ég dreg ekki í efa að veiting ríkisborgararéttar með lögum frá Alþingi sé réttmætt umfjöllunarefni fjölmiðla. Slík umfjöllun má þó ekki einkennast af dylgjum og rakalausum fullyrðingum.

mbl.is