Kastljós svarar Jónínu

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, hefur sent frá sér yfirlýsingu til að svara ummælum Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, sem birtust m.a. í Morgunblaðinu í morgun. Segir Þórhallur m.a., að aldrei hafi verið sagt, að Jónína hefði beitt sér í málinu heldur vakin athygli á óvenjulegri afgreiðslu málsins og þegar við bætist að stúlkan búi á heimili umhverfisráðherra sé full ástæða fyrir fjölmiðla að spyrja spurninga.

Yfirlýsing Kastljóss er eftirfarandi:

  Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist hafa setið undir ásökunum Kastljóss. Hún spyr hvort Kastljósið láti misnota sig með því að koma höggi á hana og Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninga.

  Því er fyrst til að svara að Kastljós er ekki misnotað af neinum.

  Í Kastljósi var bent á að ung stúlka frá Gvatemala sem er búsett á heimili ráðherrans fékk ríkisborgararétt á aðeins 10 dögum þegar venjan er að slík afgreiðsla taki fimm til tólf mánuði.

  Í þættinum kom fram að stúlkan taldi að íslenskur ríkisborgararéttur gæti auðveldað henni að stunda nám erlendis því það skapaði henni vandamál að þurfa að sækja um dvalarleyfi í hvert skipti sem hún kæmi hingað til lands í skólafríum.

  Í Kastljósi var sýnt fram á það að stúlkan hefði dvalið í landinu í 15 mánuði þegar hún fékk íslenskt ríkisfang.

  Einnig kom fram að fólki með veigameiri ástæður var hafnað á sama tíma.

  Aldrei var sagt að Jónína hefði beitt sér í málinu heldur vakin athygli á óvenjulegri afgreiðslu málsins. Þegar við bætist að stúlkan býr á heimili umhverfisráðherra er full ástæða fyrir fjölmiðla að spyrja spurninga.

  Rétt er hjá Jónínu að stúlkan fékk ríkisborgararéttinn á grundvelli „skerts ferðafrelsis" og er þar í hópi 22 annara einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang á sömu forsendum á þessu kjörtímabili. Hún gleymir hinsvegar að geta þess að 20 þeirra höfðu dvalið lengur en tvö ár í landinu þegar þeir öðluðust sinn ríkisborgararétt.

  Jónína bætir svo við að 30 einstaklingar hafi fengið íslenskt ríkisfang á þessu kjörtímabili eftir að hafa dvalið hér skemur en 1 ár. Hún getur þess hinsvegar ekki að enginn þeirra fékk íslenskan ríkisborgararétt vegna skerts ferðafrelsis.

  Jónína hallar réttu máli þegar hún segir að Kastljós hafi látið að því liggja að aðalega börn fengju ríkisborgararétt með lögum frá alþingi. Kastljós benti hinsvegar á að oft væri um börn að ræða, afreksmenn í íþróttum ogfólk sem sótti um af mannúðarástæðum. Jónína kýs hinsvegar að sleppa því að nefna tvö af þessum atriðum sem Kastljós tiltók. Þess má geta að umrædd stúlka frá Gvatemala fékk ekki íslenskan ríkisborgararétt af þeim ástæðum sem eru tilgreindar hér að ofan.

  Jónína telur að Kastljós hefði átt að láta svör Bjarna Benediktssonar, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Guðjóns Ólafs Jónssonar nægja en kýs að horfa fram hjá því að þau afgreiddu þessa umdeildu umsókn.

  Jónína hefur ekki útskýrt hvers vegna hún veifaði gögnum um mannréttindabrot í Gvatemala í viðtali í Kastljósi þegar ljóst er samkvæmt umsókninni að stúlkan þurfti ekki að þola mannréttindabrot í sínu heimalandi.

  Jónína Bjartmarz spyr í lokin „hvar er trúverðugleikinn"? Því er til að svara að Kastljós stendur við sína umfjöllun um málið.

  Þórhallur Gunnarsson
  ritstjóri Kastljóss.

mbl.is