Þurfa þeir að láta af störfum?

Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms Reykjavíkur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, mun það hafa áhrif á ýmis störf þeirra þar sem stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hlutafélaga mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur.

66. gr. hlutafélagalaga hljóðar svo: „Stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld."

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir ekki ljóst hvaða áhrif þetta muni hafa. Lögin hafa alla vega ekki nein áhrif þegar í stað þar sem málinu verður áfrýjað. Hvað verður síðar kemur í ljós.

Verjandi Tryggva, Jakob R. Möller, segist ekki vita til þess að reynt hafi á þetta ákvæði hlutafélagalaga. „En það myndi þýða það að Tryggvi Jónsson þyrfti að láta af ýmsum þeim störfum sem hann gegnir núna."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert