Listaháskólinn fær lóð í Vatnsmýri

Starfsemi Listaháskóla Íslands fer nú fram á þremur stöðum, þar …
Starfsemi Listaháskóla Íslands fer nú fram á þremur stöðum, þar á meðal hefur myndlistardeild haft aðstöðu í hluta þessarar byggingar við Laugarnesveg í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskólans, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um húsnæðismál skólans en þar kemur fram að Reykjavíkurborg gefur skólanum 11 þúsund fermetra lóð sunnan við Öskju, náttúrufræðihús Háskóla Íslands, í Vatnsmýrinni. Áætlað er að nýtt hús háskólans verði tilbúið árið 2011 og mun ríkið lggja fram fé til háskólans vegna húsnæðismála.

Fram kom hjá Hjálmari á blaðamannafundi í dag, að skólanum sé frjálst að byggja á lóðinni eða ráðstafa henni á annan hátt. Þá sagði Hjálmar, að leitað verði til aðila, sem sjá um byggingu og rekstur fasteigna um að reisa og reka sérhæft húsnæði fyrir starfsemi skólans með hliðsjón af fyrirliggjandi þarfagreiningu. Þá er gert ráð fyrir hönnunarsamkeppni vegna byggingarinnar með hliðsjón af fyrirliggjandi þarfagreiningu í samráði við LHÍ og Menntamálaráðuneytið.

Þorgerður Katrín lýsti ánægju sinni með samkomulagið en sagðist jafnframt vona að íslenskur arkitektúr yrði fyrir valinu þegar húsið yrði reist. Sagði hún skólann loks hafa fengið viðunandi lausn á sínum málum, en benti jafnframt á að boltinn væri nú í höndum skólans um að hefjast handa.

Framlög ríkisins samkvæmt samningnum hefjast þegar nýtt hús verður tekið í notkun, en stefnt er að því að það verði ekki síðar en haustið 2011. Í samningnum felst jafnframt að tillit verður tekið til sérstöðu LHÍ og viðurkennt að rýmisþörf vegna náms þar er almennt önnur og meiri en vegna annarra greina.

Allir þeir sem undirrituðu samninginn lýstu ánægju sinni með hann og samvinnu um lausn málsins undanfarin ár. Hjálmar sagði að húsnæðisvandi skólans væri langstærsta málið sem stjórn skólans hefði glímt við og sagðist hann ánægður með niðurstöðuna. Lóðin sem Reykjavíkurborg legði til væri í tengslum við miðborgina og tvo stærstu háskóla landsins, en að einnig kæmi til greina að leita annars staðar, en þá kæmi ekkert annað til greina en miðborg Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina