Starfsemi Heklu kolefnisjöfnuð

Starfsemi bifreiðaumboðsins Heklu verður kolefnisjöfnuð frá deginum í dag að telja. Jafnframt mun Hekla greiða fyrir eins árs kolefnisjöfnun allra nýrra Volkswagenbíla og njóta Hekluskógar ávinningsins.

Samkomulag þessa efnis var undirritað í höfuðstöðum Heklu í morgun af Knúti G. Haukssyni, forstjóra fyrirtækisins, og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, formanni verkefnisstjórnar Hekluskóga, um leið og gengið var formlega frá kolefnisjöfnun fyrsta Volkswagenbílsins.

Kolefnisjöfnun felst í að binda í náttúrunni samsvarandi magn kolefnis og sleppt er í formi gróðurhúsalofttegunda við eldsneytisbruna. Felur verkefnið annars vegar í sér kolefnisjöfnun á starfsemi Heklu og hins vegar eins árs kolefnisjöfnun allra nýrra Volkswagenbíla hér á landi í boði félagsins.

Samningur HEKLU við Hekluskóga er til þriggja ára, til að byrja með, og hljóðar hann samtals upp á 30 milljónir króna, eða 10 milljónir á ári, og nær yfir bæði kolefnisjöfnun nýrra Volkswagenbíla og fyrirtækisins sjálfs, þ.e. allan akstur starfsmanna í þágu fyrirtækisins, allan reynsluakstur og aðra losun gróðurhúsalofttegunda sem starfsemin hefur í för með sér. Mun Deloitte hf. annast úttekt og eftirlit verkefnisins.

Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður verkefnisstjórnar Hekluskóga, segir að fyrir þetta framlag Heklu verði gróðursettar 600 þúsund birkiplöntur, sem skipt verði í 1000 litla lundi, og þaðan muni birkið dreifast um svæðið. Að 35 árum liðnum muni plönturnar hafa breiðst út um 800 hektara lands, sem sé álíka svæði og sjálfur Hallormsstaðarskógur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert