Ráðuneytið hafnaði innflutningi kindakjöts

Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is
Landbúnaðarráðuneytið hefur synjað Aðföngum og Ferskum kjötvörum um innflutning á fersku lambakjöti frá Nýja-Sjálandi. Fyrirtækin létu senda sér um 80 kíló af sýnishornum í lok febrúar og í kjölfarið sendu þau inn umsókn um innflutning til ráðuneytisins. Svar frá ráðuneytinu barst sl. þriðjudag.

Í synjun sinni á umsókn fyrirtækjanna vísar ráðuneytið til þess að samkvæmt lögum og reglugerðum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim þurfi sá sem sækir um innflutning á hrárri kjötvöru að láta landbúnaðarráðuneytinu í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykkis áður en varan er send frá útflutningslandi. Þar sem varan hafi þegar verið send af stað og komin til landsins þegar umsóknin barst, skorti lagaskilyrði til þess að heimila innflutninginn.

Synjunin reist á öryggissjónarmiðum

Í synjun ráðuneytisins er jafnframt tekið fram að ákveðið hafi verið að fela Landbúnaðarstofnun að vinna ítarlegt áhættumat vegna hugsanlegs innflutnings á kindakjöti og gera úttekt á framleiðsluaðstöðu og ferlum í Nýja-Sjálandi til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins og til að tryggja að framleiðslan uppfylli þau skilyrði sem gerð eru samkvæmt landslögum.

„Það kom mér fyrir það fyrsta á óvart að inn í okkar miklu lambakjötsauðlind hafi einhver viljað fara að flytja inn nýsjálenskt lambakjöt, sem að vísu hefur farið víða um heiminn," segir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra.

Að hans sögn er synjunin fyrst og fremst reist á öryggissjónarmiðum; honum beri skylda til þess sem landbúnaðarráðherra að gæta ýtrustu varúðar og láta taka það út hvernig framleiðslumálum sé háttað í þeim löndum sem landbúnaðarvaran er flutt frá. „Það liggur fyrir að hingað hafa borist sjúkdómar sem við glímum enn við afleiðingarnar af, eins og garnaveiki og riðuveiki. Það liggur líka fyrir að í Nýja-Sjálandi eru sjúkdómar sem ekki eru til hér og lömbin þar eru sprautuð allt sitt vaxtarskeið með ormalyfjum," segir Guðni.

Aðföng furða sig á því hversu langan tíma afgreiðsla málsins tók og ætla að leggja inn nýja innflutningsbeiðni í næstu viku áður en ný sýnishorn af lambakjöti verða send frá Nýja-Sjálandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »