Ágreiningur um þjóðareign á náttúruauðlindum verði leiddur til lykta

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna stefnuyfirlýsingu nýrrar …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar á Þingvöllum. mbl.is/Sverrir

Haldið verður áfram endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins samkvæmt yfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Verður áhersla lögð á að leiða til lykta ágreining um þjóðareign á náttúruauðlindum í ljósi niðurstöðu sérnefndar um stjórnarskrármál um það atriði á síðasta þingi. Fram kom á blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna á Þingvöllum í dag, að umboð stjórnarskrárnefndar verði endurnýjað.

Í stefnuyfirlýsingunni segir einnig, að ríki Evrópusambandsins séu mikilvægasta markaðssvæði Íslands. „Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum," segir orðrétt.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði ekki hægt að túlka þennan kafla þannig, að verið væri að stíga skref í átt til ESB-aðildar. Umrædd nefnd yrði einskonar vaktstöð fyrir þær breytingar og þróun sem verði á Evrópusambandinu en afstaðan á hverjum tíma byggðist á mati á því hvernig hagsmunum Íslands sé best borgið. Sagðist Geir hafa skýra afstöðu til þess hvernig þeir hagsmunir liggja nú en hann vildi að fylgst yrði með þessum málum og hvort þeir hagsmunir breyttust.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagðist sammála þessu og þótt ljóst væri, að Samfylkingin hefði viljað ganga lengra en aðrir flokkar í átt að Evrópusambandinu væri mikilvægt að góð sátt sé um öll skref, sem stigin eru í þessu efni og því væri það fagnaðarefni, að sett sé upp vaktstöð af þessu tagi til að fylgjast með þróun þessara mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert