Guðni Ágústsson: Mín viðhorf eru þekkt

Forystumenn Framsóknarflokksins í morgun þar sem formaðurinn tilkynnti um afsögn …
Forystumenn Framsóknarflokksins í morgun þar sem formaðurinn tilkynnti um afsögn sína og varaformaðurinn tekur við. mbl.is/G. Rúnar

Guðni Ágústsson, sem nú tekur við formennsku í Framsóknarflokknum af Jóni Sigurðssyni, sagði á blaðamannafundi í dag að kosið verði um nýjan varaformann á miðstjórnarfundi. Samkvæmt lögum Framsóknarflokksins kýs miðstjórn nýja fulltrúa í stað formanns, varaformanns eða ritara ef þeir hverfa úr embætti og gildir kjör þeirra fram að næsta flokksþingi.

Aðspurður um hvort sjálfgefið væri að hann væri sjálfkjörinn formaður, sagði Guðni að lög Framsóknarflokksins kvæðu á um það. „Hér stend ég og get ekki annað", sagði Guðni, en hins vegar að miðstjórnarfundur tæki ákvörðun um framhaldið, reglulegt flokksþing hafi næst verið boðað árið 2009 en miðstjórnarfundur tæki ákvörðun um hvort boðað verði til flokksþings fyrr þar sem kosið yrði í helstu embætti flokksins.

Þá ítrekaði Jón Sigurðsson, sem sagði af sér formennsku í flokknum í morgun, að rætt hefði verið við trúnaðarmenn innan Framsóknarflokksins undanfarna daga og að algjör samstaða væri um ákvörðun forystumanna flokksins.

Aðspurður hvort stefnubreytinga væri að vænta með nýjum formanni, sagði Guðni, að Framsóknarflokkurinn mótaði sína stefnu á flokksþingi, stefna flokksins væri sterk, nýjum mönnum fylgdu ný sjónarmið en sín viðhorf væru þekkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert