Davíð segir gagnrýni SA ekki trúverðuga

Davíð Oddsson seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri fagnar því að Seðlabankinn fái gagnrýni, enda sé það sérhverri stofnun bæði hollt og gott. „Hitt er annað mál að það er ekki mjög trúverðugt að halda því fram að vaxtastefnan hafi engin áhrif og jafnframt kvarta yfir því að vextirnir séu farnir að bíta,“ segir Davíð um en Samtök atvinnulífsins gagnrýndu bankann harðlega í gær fyrir háa stýrivexti.

Að sögn Davðiðs eru hinir háu vextir eðli máls sakvæmt notaðir í því augnmiði að þrýsta verðbólgu niður á nýjan leik. „Verðbólgan var komin í tæplega 8%, en er núna komin í 4,5 %, þótt undirliggjandi verðbólga sé enn mikil.“

Davíð segir að háir vextir hafi áhrif í þá átt að styrkja stöðu gengisins og það geti haft áhrif á marga, sérstaklega útflutningsatvinnugreinarnar. Hins vegar sé verð á útflutningsafurðum mjög hátt eins og sakir standi, til dæmis heimsmarkaðsverð áls, og því hafi gengið ágætlega fyrir útflutningsgreinarnar að kljást við hátt gengi.

Davíð kveður það mjög ofmælt að bankinn sé fastur í vítahring stýrivaxta eins og SA segi, þvert á móti séu vaxtaákvarðanir bankans farnar að hafa áhrif og verðbólgan er á niðurleið, þótt undirliggjandi verðbólga sé enn veruleg. „Þess vegna eru menn farnir að viðurkenna það, annars staðar en bara hér, að okkar sjónarmið hafi verið rétt og að vextir þurfi að vera heldur hærri, heldur lengur en flestir höfðu spáð.“

Davíð segir það rétt hjá Samtökum atvinnulífsins að aðgerðir ríkisins í marsmánuði hafi verið mjög óheppilegar en þá var lánshlutfall Íbúðarlánasjóðs hækkað á ný.

„Það er gríðarleg eftirspurn og pressa í þjóðfélaginu enn þá og þessi aðgerð var til þess fallin að ýta undir þá pressu sem verið hefur, sérstaklega á fasteignamarkaðinum. Þannig að þetta voru ekki skynsamleg viðbrögð,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert